
Norsk stjórnvöld ættu að átta sig á að taki þau ákvörðun um að gerast virkir þátttakendur í eldflaugavarnarkerfi NATO í Evrópu láta nágrannar þeirra í Rússlandi það ekki óátalið sagði Teimuraz Ramishvili, sendiherra Rússlands í Noregi, við norska ríkissjónvarpið NRK laugardaginn 18. mars.
„Komi til þessa verðum við að taka hertæknilegar ákvarðanir sem miða að því að eyða öllum áhrifum sem hugsanlegt eldflaugavarnarkerfi hefði. Það mundi að sjálfsögðu vekja hörð viðbrögð í Noregi og Norðmenn mundu halda því fram að Rússar ógnuðu sér og landi sínu hernaðarlega,“ sagði sendiherrann í samtalinu.
„Norðmenn verða að skilja að verði land þeirra útvörður NATO er Rússum að mæta og rússneskum hernaðarmætti,“ sagði Ramishvili og bætti við að með þessu myndaðist „nýr þáttur sem verður liður í hernaðaráætlunum okkar og skapar aukinn vanda á norðurslóðum“:
„Af þessum sökum verður ekki lengur unnt að tala um friðsamlegt norðurskautssvæði,“ sagði sendiherrann.
Í samtali við rússnesku TASS-fréttastofuna mánudaginn 20. mars sagði sendiherrann að óhjákvæmilegt væri fyrir Rússa að viðra þessi sjónarmið sín opinberlega vegna þess að Norðmenn vildu ekki segja neitt um málið.
„Við verðum að ræða þetta opinberlega vegna þess að ekki eru neinar viðræður milli ríkjanna um þetta og Norðmenn eru tregir til að ræða sjónarmið sín við nágranna sína. Vegna þessa reynir sendiráðið að ná athygli almennings og stjórnmálamanna í von um að geta komið í veg fyrir vígbúnaðarkapphlaup á norðurslóðum,“ sagði sendiherrann við TASS.
Í frétt rússnesku fréttastofunnar um málið er rifjað upp að á árinu 2015 hafi Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, lýst áhuga Norðmanna á að leggja sitt af mörkum til evrópskra eldflaugavarna. Fyrir lok árs 2017 eigi norskir og bandarískir sérfræðingar að leggja fram tillögur sínar um málið fyrir norsku ríkisstjórnina.
Í norska flotanum eru nú fimm nýjar freigátur af Fridtjof Nansen-gerð. Þær eru búnar Lockheed Martin’s AEGIS skotflaugakerfi sem unnt er að uppfæra á þann veg að það verði hluti evrópska eldflaugavarnarkerfisins.
Bent er á Globus II ratsjárstöðin sé á Vardø-eyju skammt frá rússnesku landamærunum og árið 2020 hafa Bandaríkjamenn áform um að hafa reist þar aðra ratsjá sem einnig getur tengst evrópska eldflaugavarnarkerfinu. Norskir embættismenn segja að ekki séu neinar ráðagerðir um slíkt.
Teimuraz Ramishvili var sendiherra Rússa í Danmörku 2007 til 2012. Eftirmaður hans þar, Mikhail Vanin, hótaði Dönum í mars 2015 að þeir kynnu að verða fyrir kjarnorkuárás Rússa yrðu dönsk herskip hluti af eldflaugavörnum Evrópu.