Home / Fréttir / Noregur: Rússneska sendiráðið andmælir ásökun um sundrungariðju

Noregur: Rússneska sendiráðið andmælir ásökun um sundrungariðju

Rússneska sendiráðið í Osló.
Rússneska sendiráðið í Osló.

Leyniþjónusta norska hersins birti mánudaginn 10. febrúar skýrslu þar sem segir að Rússar reyni að ala á sundrung milli norður- og suðurhluta Noregs. „Kremlverjar reyna að nýta sér öll mál sem geta ýtt undir klofning,“ sagði yfirmaður leyniþjónustunnar, Morten Haga Lunde, hershöfðingi.

Af þessu tilefni sneri ritstjóri norsku vefsíðunnar Barents Observer sér til rússneska sendiráðsins í Olsó sem svaraði með tölvubréfi og hafnaði ásökunum um íhlutun í innri málefni Noregs. Sendiráðið starfi nákvæmlega eftir því sem fram komi í alþjóðalögum um stjórnmálasamband ríkja, eftir „sömu reglum og norska sendiráðið í Moskvu fylgi“.

Sendiráðið segir að þessar ásakanir leyniþjónustunnar um tilraunir Rússa til að hafa áhrif á umræður í Norgei séu sambærilegar við ásakanir sem norska öryggislögreglan (PST) hafi birt áður.

„Eins og venjulega eru engar sannanir bara almennar vangaveltur.“

Sendiráðið segist sammála mati norsku leyniþjónustunnar þegar vikið sé að viðleitni Rússa til að eiga víðtækara samtal sem leiði til minni spennu á norðurslóðum.

„Þetta er sjaldgæft dæmi um að við séum sammála Frank Bakke-Jensen, varnarmálaráðherra Noregs, þegar hann segir „góð nágrannatengsl krefjast þess að hvor um sig sýni hinum athygli“.“

Þá segir sendiráðið: „Þetta [skortur á gagnkvæmri virðingu] er einmitt það sem einkennir framkomu Norðmanna á Spitsbergen, þar sem vandamálum fjölgar.“

Í bréfi sendiráðsins til Barents Observer segir að rússnesk stjórnvöld leggi sig af alvöru fram um að viðhalda stöðugleika og fyrirsjáanleika á norðurslóðum, leita eftir raunhæfu samstarfi við Norðmenn, stofna til stjórnmálalegra tengsla og svæðisbundins samstarfs. Þau vilji viðhalda sama góða andrúmslofti í samskiptum ríkjanna og einkenndi hátíðarhöldin í október 2019 þegar þess var minnst að 75 ár voru liðin frá því að rauði herinn frelsaði norðurhluta Noregs.

Þrátt fyrir þessi hátíðarhöld hafi ekki tekist að blása nýjum anda í viðskiptasamband þjóðanna en sendiráðið ætli að beita sér fyrir að þau þetta samband dafni enn frekar.

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …