
Norska öryggislögreglan (PST) skýrði frá því sunnudaginn 23. september að hún hefði handtekið rússneskan karlmann vegna gruns um að hann hefði sótt málstofu í norska þinginu, stórþinginu, til að njósna.
Gripið var til víðtækra aðgerða í þinghúsinu til að kanna hvort Rússinn hefði hugsanlega skilið eftir hlerunarbúnað í húsinu. Tölvuprentarar hafa verið teknir úr notkun og sérstök athugun fer fram á símabúnaði, þar á meðal farsímum þingmanna og starfsmanna.
Um er að ræða 51 árs rússneskan ríkisborgara sem var tekinn fastur föstudaginn 21. september vegna grunsemda um „ólöglegar njósnir“ segir í norskum fjölmiðlum. Sannist sakir á hann kann hann að hljóta allt að þriggja ára fangelsisdóm.
Trond Hugubakken, upplýsingafulltrúi PST, sagði að lögreglan hefði gripið manninn á Gardemoen-flugvelli við Osló og hann sæti nú í tveggja vikna gæsluvarðhaldi.
Upplýsingafulltrúinn sagði að Rússinn hefði setið tveggja daga málstofu fulltrúa frá þjóðþingum 34 landa þar sem rætt var um nýtingu stafrænnar tækni við þingstörf.
Teimuraz Ramishvili, sendiherra Rússa í Noregi, gagnrýndi handtökuna á Facebook-síðu sinni og sagði hana reista á „fáránlegum tilbúningi“.
Fréttaskýrendur segja að þetta atvik í Noregi sé enn eitt dæmið um vaxandi njósna-spennu milli stjórnvalda á Vesturlöndum annars vegar og í Rússlandi hins vegar.
Fyrr í september sökuðu svissneskir embættismenn útsendara Rússa um efna til tveggja netárása á stofnanir í Sviss: Spiez-rannsóknastofuna í Bern og skrifstofu World Anti-Doping Agency (WADA)í Lausanne.
Í Spiez-rannsóknastofunni var unnið að greiningu fyrir Stofnunina um bann við efnavopnum (OPCW) í Haag vegna rannsóknar á tilrauninni til að drepa rússneska gagnnjósnarann Segeri Skripal með eitri í Salisbury á Englandi.
Í WADA er staðinn vörður gegn misnotkun á lyfjum í íþróttum. Stofnunin hefur árum saman verið þyrnir í augum yfirvalda í Moskvu fyrir að upplýsa að rússnesku yfirvöldin standi að baki lyfjamisnotkun rússneskra íþróttamanna.
.