Home / Fréttir / Noregur: Rússar tortryggnir vegna brottflutnings bandarískra landgönguliða

Noregur: Rússar tortryggnir vegna brottflutnings bandarískra landgönguliða

Vara-forstjóri upplýsingadeildar rússneska utanríkisráðuneytisis, Alexeij Zaitsev
Vara-forstjóri upplýsingadeildar rússneska utanríkisráðuneytisis, Alexeij Zaitsev

Í grein sem Thomas Nilsen, ritstjóri norsku vefsíðunnar Barents Observer, skrifar á síðuna laugardaginn 8. ágúst segir hann að rússnesk yfirvöld lýsi efasemdum um að brottflutningur 700 bandarískra landgönguliða frá Noregi leiði til minnkandi umsvifa Bandaríkjahers í Norður-Noregi, þau kunni þvert á móti að aukast.

„Þrátt fyrir að kynnt sé minnkun á varanlegri viðveru bandarískra landgönguliða í Noregi er ekki um neinn raunverulegan samdrátt í bandarískum umsvifum að ræða,“ sagði vara-forstjóri upplýsingadeildar rússneska utanríkisráðuneytisins, Alexeij Zaitsev, í samtali við rússneska blaðið Kommersant, föstudaginn 7. ágúst en daginn áður birti Barents Observer frétt um brottför bandarísku landsgönguliðanna.

„Við útilokum ekki að á bak við nýja virkni í viðveru þeirra felist í raun umtalsverð aukning á raunverulegum fjölda hermanna. Undir yfirskini sameiginlegra æfinga með Norðmönnum geta Bandaríkjamenn þvert á móti styrkt stöðu sína umtalsvert í Norður-Noregi,“ sagði Zaitsev í viðtalinu.

Hann sagði að í Moskvu hefðu menn áhyggjur af þessum æfingum. Rússar hefðu undanfarin ár fylgst með „kerfisbundnum hernaðarundirbúningi Norðmanna, einkum á svæðum sem liggja að landamærum Rússlands og Noregs“.

Thomas Nilsen bendir á að sé farin bein leið um Finnland frá Setermoen, þar sem bandarísku landgönguliðarnir æfa og Norðmenn hafa mestan liðsafla sinn, til rússnesku landamæranna við Kirkenes sé vegalengdin 430 km. Sé ekin stysta leið eftir vegum innan Noregs sé vegalengdin 961 km.

Norska herdeildin við Sør-Varanger (GSV) heldur úti landamæravörslu við rússnesku landamærin, í henni eru nú 200 léttvopnaðir hermenn. Á þessum slóðum nýtir norska leyniþjónustan einnig háþróaðan eftirlitsbúnað.

Zaitsev sagði Norðmenn búa sig gegn Rússum með því að þróa herafla sinn, kaupa vopn og endurbæta hernaðarmannvirki. Ráðamenn í Osló græfu á þennan hátt undan stöðugleika á svæðinu. Hann sagðist vona að Norðmenn áttuðu sig á villu síns vegar og legðu sig eins og áður fram um ábyrga og framsýna stefnu á norðurslóðum og forðuðust allt sem græfi undan svæðisbundnum stöðugleika og skaðaði tvíhliða samskipti.

 

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …