Home / Fréttir / Noregur: Risahafsvæði opnuð fyrir vindorkuver

Noregur: Risahafsvæði opnuð fyrir vindorkuver

shutterstock_602703245

Norska ríkisstjórnin tilkynnti föstudaginn 12. júní að frá og með 1. janúar 2021 yrði unnt að óska eftir heimild til að setja upp haf-vindorkuver á tveimur svæðum undan strönd Noregs: Utsira Nord (1010 ferkm) og Sørlige Nordsjø II (2591 ferkm). Talið er að samtals megi framleiða 4.500 MW af vind-raforku á svæðinu.

Tina Bru, olíu- og orkumálaráðherra Noregs, sagði af þessu tilefni að mikil viðskiptatækifæri fælust í heimildinni fyrir norsk fyrirtæki. Raforkuframleiðsla  með vindi á hafi úti myndi að minnsta kosti fyrst um sinn nýtast við orkuútflutning til annarra landa. Með lækkandi framleiðslukostnaði yrði raforkuverðið væntanlega samkeppnishæft innan Noregs.

Utsira Nord er vestur af Haugasundi en suðurmörk Sørlige Nordsjø II eru við lögsögu Danmerkur í Norðursjó.

Á svæðunum verða bæði fljótandi vindmyllur og botnfastar.

Það er Norwegian Offshore Wind Cluster sem hefur hvatt norsk stjórnvöld til að heimila meiri nýtingu á vindorku á hafi úti.

„Nú hefst gífurlegt iðnaðarævintýri. Flutt verður út fyrir þúsundir milljarða vegna þess sem gerist hér í dag. Þetta er ótrúlega stór dagur,“ sagði Gunnar Birkeland, stjórnarformaður í Norwegian Offshore Wind Cluster.

Hann segir að á Utsira nord megi reisa 150 vindmyllur og nýta megi norska tækni til að reisa hverja þeirra fyrir 300 til 350 milljónir n.kr.

„Þetta er það sem norski olíuiðnaðurinn þarfnast. Við lyftum einnig undir margan annan iðnað þar sem er að finna snjallar lausnir,“ sagði hann.

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …