Home / Fréttir / Noregur: Ný stjórn, sama áhersla á varnarsamstarf við Bandaríkin

Noregur: Ný stjórn, sama áhersla á varnarsamstarf við Bandaríkin

Odd Roger Enoksen, varnarmálaráðherra Noregs.

Varnarsamstarf Norðmanna við Bandaríkjamenn verður í stórum dráttum óbreytt eftir stjórnarskiptin í Noregi, segir nýr varnarmálaráðherra Noreg, miðflokksmaðurinn Odd Roger Enoksen (67 ára) í samtali við vefsíðuna High North News. Ráðherrann áréttar jafnframt að mikilvægt sé að ræða við Rússa.

„Samskiptin við Rússa versnuðu mjög alvarlega eftir atburðina árið 2014 og síðan hafa næstum engin samtöl verið við þá um varnarmál,“ segir ráðherrann.

Hilde-Gunn Bye, blaðamaður High North News, hitti ráðherrann í Bodø-flugherstöðinni í Norður-Noregi þriðjudaginn 2. nóvember. Fyrr um daginn hafði ráðherrann setið fund með yfirstjórn norska hersins og rætt hernaðarlegu stöðuna á norðurslóðum.

Í stjórnarsáttmála minnihlutastjórnar Verkamannaflokksins og Miðflokksins í Noregi undir forsæti Jonas Gahrs Støre segir að stjórnin stefni að því að efla viðræður um utanríkis- og öryggismál á norðurslóðum og koma á fót sameiginlegum vettvangi til að ræða breytingar á stefnunni í öryggismálum.

Ríkisstjórnin segist einnig vilja stuðla að lágspennu í nágrenni Noregs með viðveru norsks liðsafla og með því að fylgja skýrri, fyrirsjáanlegri og traustvekjandi stefnu.

Enoksen segir að efla verði heimavarnarlið og norska herinn á norðurslóðum. Það sé forgangsmál.

Minnt er á að Bandaríkjamenn hafi undanfarin ár aukið hernaðarleg umsvif sín umtalsvert á norðurslóðum. Bæði innan Noregs og í nágrenni við landið, Bandarísk herskip hafi til dæmis siglt norðar en áður. Þá láti bandarískar sprengjuvélar oft að sér kveða á svæðinu.

Nýi norski varnarmálaráðherrann er spurður hvað honum finnist um aukinn áhuga Bandaríkjamanna á norðurslóðum. Ráðherrann svarar:

„Bandaríkjamenn eru nánustu bandamenn okkar. Það er grundvallarþáttur í viðleitni okkar til að tryggja eigin varnir sem best að tryggja viðveru og æfingar með Bandaríkjamönnum og öðrum bandamönnum okkar. Það er fagnaðarefni að bandamenn okkar vilji æfa með okkur á okkar svæði.“

Þá spyr blaðamaðurinn hvort nýja ríkisstjórnin muni fylgja annarri stefnu gagnvart Bandaríkjamönnum en fyrri ríkisstjórn, til dæmis þegar litið sé til hernaðarlegrar samvinnu.

Ráðherrann svarar:

„Stefnan verður ekki umtalsvert önnur en fyrri stjórn fylgdi. Það er fremur víðtæk sátt milli allra flokka á stórþinginu í varnarmálum. Það er mikilvægt að stöðugleiki einkenni stefnuna í öryggis- og varnarmálum. Hins vegar kann að vera einhver skoðanamunur; við viljum til dæmis auka viðbúnaðinn meira í norðri. Á hinn bóginn erum við sammála um tengslin við Bandaríkjamenn.“

Odd Roger Enoksen fer 16. nóvember á fund með Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, í Washington til viðræðna um tvíhliða samstarf ríkjanna í varnarmálum og stöðu öryggismála á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum.

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …