Home / Fréttir / Noregur: Írönsk kærasta sjávarútvegsráðherranum að falli

Noregur: Írönsk kærasta sjávarútvegsráðherranum að falli

Bahareh Letnes og Per Sandberg.
Bahareh Letnes og Per Sandberg.

Per Sandberg sjávarútvegsráðherra Noregs, varaformaður Framfaraflokksins, sagði af sér ráðherraembætti og varaformennskunni mánudaginn 13. ágúst vegna gagnrýni sem hann hefur sætt vegna ferðar til Írans og fyrir að hafa heimsótt sendiráð Írans í Osló á byltingarafmælisdegi landsins.

Sandberg (58 ára) er í sambandi við íranska konu, Bahareh Letnes (28 ára) sem segir að ráherrann fyrrverandi hafi sætt „nornaveiðum“. Hún taki mjög nærri sér að einn besti stjórnmálamaður Noregs verði að láta af embætti vegna nornaveiða.

Allt fór á annan endann í norskum fjölmiðlum þegar fréttir bárust af því að Letnes og Sandberg hefðu farið saman í frí til Írans. Sandberg hafði embættis-farsíma sinn með á ferðalaginu og braut þar með öryggisreglur ríkisstjórnarinnar.

Letnes og Sandberg hafa boðað til blaðamannafundar þriðjudaginn 14. ágúst en í orðsendingu sem Letnes sendi til Dagbladet í Osló segist hún hafa verið „eyðilögð í lýðræðislandi. Í landi sem sagt er vera eitt friðsælasta land heims og í landi sem skipar sér í fremstu röð í baráttunni fyrir mannréttindum. Hvað segir þetta einræðislöndum? Erum við nokkuð betri en þau?“ spyr hún.

Það var norska blaðið VG sem fann myndir á Instagram-síðu Letnes úr fríinu í Íran sem hratt umræðunum um ferðalag þeirra af stað og að staðfest var að náið samband væri milli þeirra. Letnes var þó einnig með ráðherranum í febrúar í ár þegar hann fór í íranska sendiráðið í Osló til að fagna afmælisdegi klerkabyltingarinnar í Íran. Látið var að því liggja að hann hefði verið þar í einkaerindum en síðar kom í ljós að hann tók þátt í viðburðinum sem ráðherra.

Eftir að fréttir birtust af ferð þeirra Letnes og Sandbergs til Írans var upplýst að hann hefði farið úr landi án þess að láta eigið ráðuneyti eða forsætisráðherrann vita um ferðir sínar fyrir utan að hafa með sér embættis-farsímann. Vegna þessara frétta fóru Letnes og Sandberg í samtal við norska ríkisútvarpið NRK og þar hafnaði Letnes því að hún væri í einhverjum tengslum við írönsk stjórnvöld.

Norska öryggislögreglan, PST, rannsakar nú síma Sandbergs og fortíð Letnes.

Bahareh Letnes kom sem flóttamaður til Noregs árið 2006. Þrisvar sinnum var henni neitað um hæli og send aftur til Írans þar sem yfirvöld vildu ekki taka við henni af því að pappírar hennar væru ekki í lagi. Loks fékk hún hæli í Noregi með vísan til þess að hún kynni að verða neydd til að ganga í hjónaband ef hún sneri að nýju til upprunalands síns. Hvað sem því leið var hún kjörin Miss Íran árið 2013.

Norskir fjölmiðlar segja að í janúar 2018 hafi Letnes stofnað fyrirtækið B&H General Trading Company Bahareh Letnes sem stundi meðal annars „framleiðslu, þróun, kaup og sölu, þar á meðal á fiski og sjávarafurðum og öðru sem falli eðlilega að slíkri starfsemi“.

Sjávarútvegsráðuneytið hefur áréttað að hvorki ráðherrann né ráðuneytið hafi nokkurt samband við þetta fyrirtæki.

Per Sandberg hefur ekki skýrt frá því hvers vegna hann sagði ekki Ernu Solberg forsætisráðherra frá ferð sinni til Írans. Dóttir hans, Charlotte Kjær Sandberg, sagði hins vegar við TV2 í Noregi sunnudaginn 12. ágúst að hann hefði verið með hugann við konuna sem hann væri að yfirgefa. Faðir sinn hefði ekki viljað að hún vissi um ferðir hans.

Ekki hefur endanlega verið gengið frá skilnaði Sandberg-hjónanna, megi marka frásagnir blaða, en Line Miriam Sandberg er staðgengill ráðherra (statssekretær) í heilbrigðis- og velferðarráðuneytinu. Adresseavisen í Noregi segir að hún hafi gert forsætisráðherranum viðvart um að „erlent veldi“ hefði flutt heim til sjávarútvegsráðherrans. Viðbrögð ráðherrans voru að saka hana um að leka upplýsingum úr dagbók sinni.

 

Heimild: ABC Nyheter, Jyllands-Posten

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …