Home / Fréttir / Noregur: Framfaraflokkurinn fer úr ríksstjórn – Solberg áfram forsætisráðherra

Noregur: Framfaraflokkurinn fer úr ríksstjórn – Solberg áfram forsætisráðherra

Siv Jensen, formaður Framfaraflokksins.
Siv Jensen, formaður Framfaraflokksins.

Framfaraflokkurinn sagði mánudaginn 20. janúar skilið við samstarfið í ríkisstjórn Noregs. Flokkurinn hefur átt aðild að borgaralegri ríkisstjórn undir forsæti Ernu Solberg, formanns Hægriflokksins, í sex ár og tvo mánuði. Erna Solberg situr áfram sem forsætisráðherra. Í Noregi er ekki heimilt að rjúfa þing og efna til kosninga.

Siv Jensen, formaður Framfaraflokksins, sagði á blaðamannafundi þegar hún tilkynnti brottförina úr ríkisstjórninni:

„Ég leiddi Framfaraflokkinn í ríkisstjórn, ég flokkinn nú úr stjórninni. Ég geri þetta vegna þess að það er eina rétta í stöðunni. Við náum einfaldlega ekki fram nógu mörgum stefnumálum okkar til að réttlæta frekari ósigra.“

Siv Jensen tók sérstaklega fram að hún sæi enga ástæðu til að skipta um forsætisráðherra, hún styddi Ernu Solberg.

Ástæðan fyrir að upp úr sýður núna er að þriðjudaginn 14. janúar tilkynni utanríkisráðherrann á blaðamannafundi að af mannúðarástæðum yrði að heimila brúði liðsmanns í hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams í Sýrlandi að snúa aftur til Noregs með börn sín vegna veikinda ungs drengs.

Framfaraflokkurinn gagnrýndi ákvörðunina harðlega. Áhættan af því að hleypa konunni til landsins væri meiri en tillit til mannúðarsjónarmiða.

Erna Solberg forsætisráðherra efndi til blaðamannafundar eftir að Siv Jensen hafði tilkynnt úrsögn sína. Um leið og hún þakkað Framfaraflokknum fyrir samstarfið sagðist hún virða að flokkurinn hefði aðra afstöðu til heimkomu brúðarinnar og barnanna, það hefði verið réttmætt að taka á móti veiku barni og veita því lækningu.

Erna Solberg sagði að á stórþinginu væri nægilegur þingstyrkur til að koma í veg fyrir myndun ríkisstjórnar sósíalískra flokka.

„Þegar Siv Jensen telur að ég eigi að vera forsætisráðherra er eðlilegt að við höldum áfram,“ sagði Solberg og stjórnin ætlaði að starfa áfram á grundvelli sömu stjórnarstefnu sem sé málamiðlun milli fjögurra flokka.

Forsætisráðherrann sagði ekki tilefni til annars en flokkarnir þrír sem sitja áfram í ríkisstjórninni færu með stjórn landsins.

Ingolf Ropstad, formaður Kristilega þjóðarflokksins, sagði að flokkur sinni yrði áfram í ríkisstjórninni.

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …