Home / Fréttir / Noregur: Drónar Rússa ögra Norðmönnum

Noregur: Drónar Rússa ögra Norðmönnum

Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, segir að Norðmenn fylgist náið með umsvifum rússneska flotans á norðurslóðum. Það eigi frekar að skoða þau í ljósi stríðsins í Úkraínu en sem lið í sérstökum aðgerðum Rússa á norðurslóðum.

Hilde-Gunn Bye frá norsku vefsíðunni High North News (HNN) hitti forsætisráðherrann í liðinni viku þegar hann ræddi við námsmenn í Nord-háskólanum í Bodø í Norður-Noregi.

„Við sjáum engin merki um að öryggisógn hafi aukist í norðri, hvorki gagnvart Noregi né öðrum löndum,“ sagði norski forsætisráðherrann.

„Við sjáum enga hernaðarlega ógn gegn Noregi. Fyrir ári höfðu þeir sem þá voru í Úkraínu ástæðu til að telja ógn steðja að landinu. Þá voru 150.000 hermenn við landamærin,“ sagði Støre við námsmennina.

Forsætisráðherrann sagði norðurslóðaumsvif Rússa snúast um flutning á liðsafla og skipum. Þá stundi Rússar þar einnig tilraunir með vopn, til dæmis flugskeyti. Þau snúi ekki beint að svæðinu en fylgst sé með þeim.

Frá því að viðtalið við forsætisráðherrann var tekið hafa umræður orðið meiri í Noregi um drónaflug og myndatökur Rússa á norskum olíuvinnslusvæðum á hafi úti og einnig á Svalbarða.

Miðvikudaginn 19. október var tilkynnt að framvegis myndi norska öryggislögregla, PST, rannsaka drónaflugin. Talið sé að drónarnir kunni að vera notaðir til að safna upplýsingum til undirbúnings skemmdarverkum á norskum mannvirkjum og falli þar með undir starfsvið PST.

Undanfarnar vikur hafa sjö Rússar verið handteknir í Noregi vegna grunsamlegrar notkunar á drónum.

Miðvikudaginn 19. október var Rússi handtekinn í Hammerfest í Norður-Noregi fyrir að hafa sent dróna á loft yfir Svalbarða. Hann er 47 árs gamall sonur náins bandamanns Vladimirs Pútins Rússlandsforseta, hefur hann verið á refsilista Bandaríkjastjórnar allt frá 2014 þegar Rússar innlimuðu Krímskaga. Frá þessu er skýrt á vefsíðunni Barents Observer. Maðurinn sem var handtekinn er bæði með breskan ogf rússneskan ríkisborgararétt, hann býr á Ítalíu, og á samkvæmt rússneskum fjölmiðlum að hafa mótmælt innrásinni í Úkraínu.

Jonas Gahr Støre forsætisráðherra tók 19. október af skarið um að Rússar mættu ekki nota dróna yfir Noregi og öllum sé bannað að nota þá yfir mikilvægum grunnvirkjum. „Við bönnum það. Við munum framfylgja banninu. Við stöðvum þetta,“ sagði ráðherrann.

 

Skoða einnig

Jevgeníj Pirogsjin.

Wagner-foringi skapar spennu í Kreml

Jevgeníj Prigosjín, foringi alræmdu Wagner-málaliðanna, hefur opinberlega hafnað lykilatriðum í útlistun Kremlverja á tilefni stríðsins …