Home / Fréttir / Noregur: Bandarískur hershöfðingi varar landgönguliða við hættu á stríði

Noregur: Bandarískur hershöfðingi varar landgönguliða við hættu á stríði

Robert Neller hershöfðingi.
Robert Neller hershöfðingi.

Bandarískir landgönguliðar dveljast til skiptis tímabunduð í Þrændalögum í Noregi. Fjögurra stjörnu bandarískur hershöfðingi, Robert Neller, heimsótti þá skömmu fyrir jól og sagði að raunveruleg hætta væri að til stríðsátaka kæmi.

Í norskum fjölmiðlum er vitnað í Bussiness Insider sem segir að Neller hafi sagt að hann vænti þess að Bandaríkjastjórn beindi athygli sinni frá Mið-Austurlöndum að Rússlandi og Kyrrahafssvæðinu auk Norður-Kóreu, Írans og Kína.

Sagt er að Robert Neller hafi notað orðin big ass-fight um það sem hann telur yfirvofandi stórátök og bandarískir hermenn í Noregi verði ávallt að vera búnir undir stríðsátök.

„Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér en það verður stríð. Þið eigið hér í átökum, það er upplýsingastríð, pólitísk barátta vegna þess að þið eruð hér,“ er haft eftir Neller á Military.com.

Í janúar árið 2017 komu 300 bandarískir fótgönguliðar til Værnes í Noregi. Í maí 2017 var tilkynnt að US Marines, bandaríska landgönguliðið, lítur á Værnes sem aðalstöð fyrir 650 liðsmenn sína sem eru á víð og dreif um Evrópu.

Þetta er í fyrsta sinn frá því í síðari heimsstyrjöldinni sem svo fjölmennt bandarískt herlið er í Noregi. Frá því að Norðmenn gerðust stofnaðilar að NATO árið 1949 hafa þeir fylgt stefnu sem á norsku nefnist baseerklæringen, það er yfirlýsingin um herstöðvar. Í henni felst að ríkisstjórnin leyfi ekki erlendar herstöðvar á norsku landi á friðartímum.

Bandarísku hermennirnir æfa sig við vetraraðstæður til að geta lagt bandamönnum sínum lið á hættustundu. Bandaríkjamenn geyma einnig þung hergögn í vopnabúrum í Þrændalögum.

Ronald Green major tók þátt í heimsókn hershöfðingjans til Værnes. Í ávarpi sínu sagði hann: „Munið hvers vegna þið eruð hér. Þeir fylgjast með ykkur á sama hátt og við fylgjumst með þeim. Við höfum 300 hermenn hérna en á einni nóttu geta þeir orðið 3.000.“

Oftar en einu sinni hafa rússnesk yfirvöld gagnrýnt dvöl bandarísku hermannanna. Norska ríkisstjórnin hefur þá gagnrýni að engu og hefur nú framlengt samninginn um tímabundna dvöl bandarísku landgönguliðanna á Værnes út árið 2018.

Ákvörðunin um að semja við Bandaríkjastjórn hefur meðal annars sætt gagnrýni frá SV, sósíalíska vinstri flokknum. Lars Haltbrekken, fulltrúi flokksins í Suður-Þrændalögum sagði:

„Þetta er brot á norskri herstöðvastefnu. Ríkisstjórnin getur ekki lengur falið sig á bak við yfirlýsingar um að hér sé um „tímabundið skiptilið“ að ræða eða „tímabundna þjálfun“. Við höfum nú bandaríska herstöð á norsku landi andstætt því sem verið hefur í Noregi frá 1949.“

Erna Solberg forsætisráðherra úr Hægriflokknum hafnar þessari skoðun:

„Þetta er ekki brot á herstöðvastefnunni. Við höfum ávallt sagt að hér mætti stunda æfingar, efna til þjálfunar og taka móti liðsafla. Við viljum ekki að hér séu varanlegar herstöðvar.“

Jakub M. Godzimirski, sérfræðingur í rússneskum málefnum við Norsku utanríkismálastofnunina (NUPI), segir að Rússar hefðu ekki erindi sem erfiði gripu þeir til vopna gegn Vesturlöndum. Eftir að hafa fylgst með rússneskum málefnum í 20 ár telur hann ekkert benda til að Rússar búi sig undir innrás í Noreg. Hann er ekki heldur þeirrar skoðunar að vera 300 bandarískra hermanna í Noregi spilli samskiptunum við Rússa.

Hann segir að hershöfðingjar lifi og hrærist í stríðum og séu mjög með hugann við átök, þetta setji svip á hugsun þeirra og orð. Það verði að skoða ummæli Nellers hershöfðingja í þessu ljósi.

Hann segir að víða í heiminum ríki mun meiri spenna en í Noregi. Komi til átaka milli rússnesks og vestræns herafla steðji meiri hætta að þýsku, kanadísku og bresku NATO-hermönnunum í Eistlandi (um 800), Lettlandi (1200), Litháen (1200). Um 200 norskir hermenn eru í Litháen.

Um 4.000 bandarískir hermenn eru í Póllandi. Í pólska hernum eru um 105.000 virkir liðsmenn.

Godzimirski bendir á að í rússneska hernum sé mannaflinn um tíundi hluti af þeim herafla sem finna megi innan NATO.

„Þótt Rússum takist tímabundið að ná einhverjum hernaðarlegum árangri þjónar það ekki hagsmunum þeirra að standa í langvinnum átökum. Vestur-Evrópa er helsti viðskiptavinur þeirra,“ segir Godzimirski. „Þeir reyna að ögra Vesturlöndum en það verður frekar gert með áróðurs- og upplýsingastríði en hernaðaraðgerðum.“

Skoða einnig

Tortryggni í garð Moskvuvaldsins vex í gömlu Sovétlýðveldunum

Stuðningur við forsystusveit Rússlands hefur hrapað í nágrannalöndum landsins. Íbúar landanna eru tortryggnir í garð …