Home / Fréttir / Noregur: Aukinn hernaðarmáttur Rússa og vilji til að beita honum kallar á aukinn útgjöld til varnarmála

Noregur: Aukinn hernaðarmáttur Rússa og vilji til að beita honum kallar á aukinn útgjöld til varnarmála

Ine Eriksen Søreide, varnarmálaráðherra Noregs.
Ine Eriksen Søreide, varnarmálaráðherra Noregs.

Norska ríkisstjórnin segir aukinn hernaðarmátt Rússa og valdbeiting þeirra vera „markverðustu breytingarinnar í öryggisumhverfi Noregs“ og vill að fjárveitingar til norska hersins verði auknar um 165 milljarða norskra króna næstu 20 ár.

Ine Eriksen Søreide, varnarmálaráðherra Noregs, kynnti langtímaáætlun um störf norska hersins árin 2017 til 2020 í norska stórþinginu föstudaginn 17. júní. Í ræðu sinni sagði hún:

„Nokkur undanfarin ár hefur staða öryggismála í Evrópu versnað, það minnir okkur á að ekki er sjálfsagður hlutur að fullveldi okkar. réttindi okkar og frelsi séu virt.

Þessi hraða breyting minnir okkur einnig á aðra staðreynd, það er einfaldlega of seint að búa sig undir hættuástand eftir að það er orðið. Við verðum að taka réttar ákvarðanir og festa fé á réttan hátt núna til að tryggja að við höfum getu til að takast á við framtíðarhættu.“

Í tillögu ríkisstjórnarinnar felst stigvaxandi hækkun útgjalda til varnarmála á næstu fjórum árum þannig að árið 2020 verði útgjöldin 7,2 milljörðum NOK (105 milljörðum ISK) hærri en árið 2016 og á næstu 20 árum nemi hækkunin samtals 165 milljörðum NOK  (2500 milljarðar ISK) umfram árið 2016.

Lagt er til auknu fé verði varið til ýmissa mikilvægra þátta sem stuðla að betri upplýsingaöflun og greiningu, meiri viðbragðshæfni, betra úthaldi og öflugri sóknarmætti norska hersins.

Lokið verður kaupum á F-35 orrustuþotum, keyptir fjórir nýir kafbátar, nýjar flugvélar til eftirlits á hafi úti auk þess sem loftvarnakerfi verða uppfærð.

„Markverðustu breytingarnar í öryggisumhverfi Noregs er aukinn hernaðarmáttur Rússa og valdbeiting þeirra,“ segir í tillögunum. „Þótt Rússar séu ekki hernaðarleg ógn við Noreg leiðir samtenging á endurnýjun heraflans og viljans til að ná áhrifum með beitingu hervalds til þess að Rússland er miðlægur þáttur í varnaráætlunum Noregs.“

Umbætur á her Rússlands fela í sér nútímavæðingu venjulegs herafla landsins og eflingu rússneska kjarnorkuheraflans. Norska ríkisstjórnin segir að innlimun Rússa á Krím fyrri hluta árs 2014 og framhald aðgerða til að grafa undan stöðugleika í austurhluta Úkraínu séu brot á alþjóðalögum sem hafi damatísk áhrif á evrópskt öryggi. Rússar hafi hvað eftir annað sýnt vilja til að beita alls konar aðferðum, þar á meðal hervaldi, til að tryggja pólitísk yfirráð sín og áhrif.

Langtímaáætlunin um varnarmál verður rædd af þingmönnum eftir sumarhlé  stórþingsins.

 

 

Skoða einnig

Zelenskíj segir Bakhmut ekki á valdi Rússa

  Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði síðdegis sunnudaginn 21. maí að hermenn Rússneska sambandsríkisins hefðu ekki …