
Kirkenes er hafnarbær nyrst í Noregi rétt við rússnesku landamærin. Þar gera menn sér vonir um að verði mikilvæg umskipunarhöfn við Barentshaf fyrir skip sem sigla norðausturleiðina fyrir norðan Rússland milli Atlantshafs og Kyrrahafs. Á vefsíðunni BarentsObserver er sagt frá því miðvikudaginn 10. júní að kínverskir fjárfestar sýni svæðinu áhuga.
Blaðamaður vitnar í Rune Rautio, starfsmann norska fyrirtækisins Aquaplan-Niva, sem árum saman hafi unnið að því að kynna viðskiptatækifæri á Barentssvæðinu, það er í norðurhluta Noregs, Rússlands, Finnlands og Svíþjóðar. Rautio er nýkominn frá Kína og segir að þar hafi menn áhuga á að festa fé í hafnarmannvirkjum í Kirkenes og járnbrautarteinum til Rovaniemi í Finnlandi.
Fengju Kínverjar þessa fótfestu á þessum slóðum ættu þeir greiðan aðgang að mörkuðum í norður- og miðhluta Evrópu segir Rautio.
Í frétt BarentsObserver segir að tengsl hagsmunaaðila í Norður-Noregi og Kína hafi aldrei slitnað þrátt fyrir óvild kínverskra stjórnvalda í garð Norðmanna eftir að andófsmaðurinn Liu Xiaobo hlaut friðarverðlaun Nóbels.
Rune Rafaelsen, fyrrv, forstöðumaður norsku Barentsskrifstofunnar, hefur árum saman ræktað náið samstarf við kínversk yfirvöld og tekið á móti fjölmörgum kínverskum sendinefnum í Kirkenes. Hann segir kínversk fyrirtæki hafa áhuga á að nýta norðausturleiðina og hafnaraðstöðu í Kirkenes auk tengslanna við Finnland. Hann telur mikilvægt að Norðmenn kynni hafnir sínar og sýni Kínverjum og Rússum hvaða tækifæri felist í samvinnu við Norðmenn.
BarentsObserver segir að ekki verði um neina samvinnu við aðra að ræða í Kirkenes nema stjórnendur sveitarfélagsins komi sér saman um skipulagsmál í þágu stór- og olíuhafnar. Það vefjist hins vegar fyrir mönnum sem deili um staðarval. Nú í vikunni ákvað bæjarstjórnin að fresta ákvörðun um málið.
Fjárfestar sætta sig illa við sífellda frestun málsins Þeirra á meðal er norska fyrirtækið Norterminal sem rekur olíubirgðastöðvar og dælumannvirki fyrir olíuskip. Fyrirtækið hefur augastað á firðinum inn að Kirkenes fyrir athafnasvæði.
Talið er að Kínverjar kippi sér ekki upp við hægagang við skipulagsstörfin, þeir séu ekki að flýta sér heldur vilji þeir stig af stigi búa í haginn fyrir framtíðina með mannvirkjagerð.
Í BarentsObserver segir að Kínverjar hafi stofnað til náins samstarfs við Íslendinga og á næstunni muni kínverskt fyrirtæki hefja umfangsmikla námuvinnslu á Grænlandi. Þá vinni Kínverjar með Rússum að Yamal LNG-verkefninu, það er vinnslu og nýtingu jarðgass. Þeir ætli meðal annars láta smíða 12 gasflutningaskip til að flytja gasið frá Rússlandi til Kína.
Rune Rautio segir að „fyrst núna“ sýni Kínverjar áhuga á aö láta að sér kveða á svæðinu. BarentsObserver segir að þessi áhugi hafi einnig komið í ljós árið 2012 þegar Kínverjar sendu ísbrjótinn Xue Long (Snædrekann) þvert yfir Norður-Íshafið frá Íslandi til Berings-sunds eftir að skipið sigli til Atlantshafs fyrir norðan Rússland.