Home / Fréttir / Norðurslóðir forgangsmál í varnarstefnu danska konungdæmisins

Norðurslóðir forgangsmál í varnarstefnu danska konungdæmisins

Høgni Hoydal, utanríkisráðherra Færeyja, (t.v.) og Troels Lund Poulsen, starfandi varnarmálaráðherra Dana.

Í nýlegu samtali við Jyllands-Posten segir Troels Lund Poulsen, starfandi varnarmálaráðherra Dana, að við gerð nýs samkomulags um varnir danska konungdæmisins verði fyrst lögð áhersla á norðurslóðir og síðan Eystrasalt og næsta nágrenni Danmerkur.

Í orðunum felst mikilvæg áherslubreyting af hálfu danskra stjórnvalda sem líta nú frekar til Norður-Atlantshafseyjanna, Færeyja og Danmerkur, þegar þeir skipuleggja varnir sínar til næstu fimm ára (2024-2029) en til Eystrasaltsins.

„Við verðum að beina athygli að norðurslóðum. Ef við viljum tryggja að áfram verði litið á þær sem lágspennusvæði verða Danir að leggja þar meira af mörkum,“ segir Poulsen.

Jafnaðarmaðurinn og flokksbróðir Poulsens, Morten Bødskov, sem gegndi embætti varnarmálaráðherra til stjórnarskiptanna í desember 2022 sagði í fyrra að Eystrasaltið gegndi lykilhlutverki þegar litið væri til útgjalda í þágu varnarmála að sögn grænlenska blaðsins Semitsiaq AG.

Við gerð samkomulagsins um varnarmál ætlar danska ríkisstjórnin að eiga náið samstarf við stjórnvöld á Grænlandi og í Færeyjum.

Unnið er að því að endurgera ratsjárstöðina skammt frá Þórshöfn í Færeyjum sem þjónaði NATO til ársins 2007 þegar henni var fyrirvaralaust lokað. Stefnt er að því að ratsjáin verði orðin virk að nýju innan fárra ára og nýtist við eftirlit í GIUK-hliðinu, fylli skarð sem ratsjár á Íslandi brúa ekki.

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …