Home / Fréttir / Norðurslóðir ekki undanskildar í átökum

Norðurslóðir ekki undanskildar í átökum

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, ræddi hernaðarvá á norðurslóðum í opnunarávarpi á málþingi um möguleg hernaðarumsvif á norðurslóðum, sem Alþjóðamálastofnun og Varðberg héldu í Þjóðminjasafninu.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra á málþinginu.  © Kristinn Ingvarsson

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, var með opnunarávarp á málþingi um möguleg hernaðarumsvif á norðurslóðum sem Alþjóðamálastofnun og Varðberg stóðu að miðvikudaginn 7. júní 2023. Hún ræddi þar aukna hernaðarvá á norðurslóðum, breyttar öryggishorfur, mikilvægi alþjóðalaga, bætta eftirlitsgetu og nauðsyn aukinnar varnarsamvinnu lýðræðisríkja á norðurslóðum.

Ráðherrann sagði norðurslóðir ekki verða undanskildar í mögulegum átökum framtíðar og því séu þær ekki einstakar í þeim skilningi. Hún minnti á að norðurslóðir hefðu áður verið undir í valdabaráttu stórvelda og svo væri enn. Íslenskir hagsmunir liggi í að spennustigi á norðurhveli væri haldið lágu en vísbendingar um hernaðaruppbyggingu Rússa á svæðinu valdi áhyggjum. Engar vísbendingar væru um friðsamlegar ætlanir Rússa og Ísland þurfi að taka mið af því. „Þrátt fyrir hernaðarmistök Pútíns og hernaðartap í Úkraínu virðast Rússar ekki líklegir til að breyta stefnu sinni á næstu árum,“ sagði Þórdís. „Þess vegna hefur stefnumótandi mikilvægi Norður-Atlantshafs og norðurslóða verið að aukast á undanförnum áratugum. Þetta er vegna nokkurra þátta, þar á meðal hernaðaruppbyggingar Rússa á norðurslóðum, hernaðargetu og hernaðarumsvifa í kjölfarið, sem er áhyggjuefni.“

„Ef það er ein leiðarstjarna í íslenskri utanríkistefnu þá eru það gildi og meginreglur stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og alþjóðalaga. Ísland má sín lítils í heimi þar sem valbeiting ræður ferðinni, sem er sú heimsmynd sem rússneskir og aðrir ólýðræðislegir valdhafar halda á lofti“, sagði ráðherrann. „Í mínum huga er það sjálfgefið að ekki er mögulegt að eiga í pólitísku samstarfi við Rússland á næstunni án þess að ganga í berhögg við þessi sömu grunngildi sem eru undirstaðan í norðurslóðasamstarfi,“ sagði hún.

Þórdís sagði að Ísland þurfi með öðrum ríkjum Atlantshafsbandalagsins, að svara uppbyggingu Rússa á norðurslóðum. Með væntanlegri aðild Svía að NATO, verða sjö bandalagsríki með landssvæði og hagsmuni á norðurheimskautinu. Þau lýðræðisríki ættu að eiga frekari samvinnu. Grundvöllur varna Íslands væru þó enn bundin í aðildinni að NATO og í varnarsamningnum við Bandaríkin.

Um framlag Íslands til varnarmála sagði utanríkisráðherra:

„Við erum staðráðin í að gera meira sjálf á landsvísu, þar á meðal að auka útgjöld til varnarmála, efla seiglu og auka framlag okkar til starfsemi Atlantshafabandalagsins. Það felur í sér aukinn stuðning gistiríkis við starfsemi NATO og bandamanna á Norður-Atlantshafi, ekki síst þeim sem leggja áherslu á varnir gegn kafbátahernaði.“

Fjölmennt var á málþinginu í Þjóðminjasafninu. Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, Varðberg, North-American and Arctic Defence and Security Network og utanríkisráðuneytið stóðu að skipulagningu þess.

Ávarp Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, utanríkisráðherra er hér (á ensku).

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …