„Bandaríkin og tengslin yfir Atlantshaf ráða áfram úrslitum þegar hugað er tryggja grunnþætti danskra öryggishagsmuna,“ segir Lars Findsen, forstjóri Forsvarets Efterretningstjeneste, leyniþjónustu danska hersins, í áhættumati 2019 sem birt var undir lok nóvember. Hann bendir á að upphafskafli skýrslunnar fjalli um stöðu mála á norðurskautinu.
Í upphafi skýrslunnar sem er 59 bls. eru höfuðniðurstöður hennar dregnar saman og þar segir meðal annars:
„Norðurskautsríkin eiga áfram samstarf um svæðisbundin viðfangsefni. Þrátt fyrir óskir ríkjanna um að svæðið standi utan ágreinings þeirra í öryggismálum beinist síaukin hernaðarleg athygli að norðurskautssvæðinu. Um er að ræða stórveldaspil milli Rússa, Kínverja og Bandaríkjanna sem hækkar spennsutigið á svæðinu. Rússar leggja höfuðáherslu á norðurskautssvæðið og eiga mikilla öryggis- og efnahagslegra hagsmuna að gæta á svæðinu. Hervæðing Rússa á norðurskautssvæðinu er í þágu varna en þar sjást þó æ fleiri merki um þætti sem einnig nýtast til sóknaraðgerða. Auk þess er norðurskautið mikilvægur hluti af sjálfsmynd Rússa. Hagsmunir Kínverja á norðurskautinu snúa að aðgangi að auðlindum og siglingaleiðum auk þess sem þeir vilja hafa meiri áhrif á gang norðurskautsmála. Í þessum tilgangi leggja Kínverjar sig fram um að efla heimskautarannsóknir sínar, stuðla að mannvirkjagerð og framleiðslu á norðurslóðum og styrkja samstarfstengsl við norðurskautsríkin. Hagsmunir Kínverja á norðurskautssvæðinu eru varanlegir og til langs tíma, líklegt er að þeir aukist þegar fram líða stundir. Þetta á einnig við um hagsmuni Kínverja á Grænlandi.
Rússar ögra ráðandi stöðu Bandaríkjamanna í alþjóðastjórnmálum en neyðast jafnframt til að halda uppi viðræðum við Bandaríkjamenn. Undanfarin ár hafa Rússar aukið hernaðarmátt sinn umtalsvert í vesturhluta Rússlands. Rússar rökstyðja eflingu hers síns og hernaðarlega áætlanagerð í vesturhluta lands síns með því að ekki sé unnt að útiloka stríð við NATO rétt við eða á svæði sem áður féll undir Sovétríkin. Það er þó ólíklegt að af ásetningi grípi Rússar til aðgerða sem hafa í för með sér hættu á hernaðarárekstrum við Bandaríkjamenn og NATO. Það er áfram líklegt að án eða með skömmum fyrirvara verði Danir fyrir skipulögðum þrýstingi af hálfu Rússa. Ástandið á Eystrasalti einkennist enn sem fyrr af spennunni milli NATO og Rússlands. Líklega reyna Rússar að bæta samband sitt við Dani en skilyrðin fyrir samstarfi Rússa og Dana verða áfram erfið. Almennt ber að líta þannig á að Rússar verði umtalsverð öryggisögrun við Vestrið.[…]
Fyrir liggur að mikil netógn steðjar að Danmörku. Einkum er um það að ræða að dönskum hagsmunum sé ógnað af netglæpamönnum eða aðgerðum undir handarjaðri ríkja. Alls kyns aðilar vega að innviðum netsins sem getur dregið úr trausti til þess að almennar netvarnir dugi til að tryggja nægilega vel öryggi danskra fyrirtækja og stjórnvalda. Netnjósnir geta bæði snúið að dönsku öryggi og danskri samkeppnishæfni. Með netglæpum er í verstu tilvikum unnt að koma í veg fyrir að fyrirtæki og stjórnvöld geti sinnt mikilvægum samfélagslegum skyldum sínum. Einnig er hugsanlegt að dönsk fyrirtæki og stjórnvöld utan lands verði fyrir hliðarverkunum af eyðileggingu vegna netárása utan Danmerkur.“