Home / Fréttir / Norðurslóðaþjóðir búi sig undir óvissu um stefnu Bandaríkjastjórnar

Norðurslóðaþjóðir búi sig undir óvissu um stefnu Bandaríkjastjórnar

Rasmus Gjedssø Bertelsen prófessor.
Rasmus Gjedssø Bertelsen prófessor.

Á vefsíðunni High North News sem gefin er út af High North Center í Nord-háskóla í Bodø í Noregi, birtist föstudaginn 5. júní viðtal við Rasmus Gjedssø Bertelsen, prófessor í norðurfræðum við Tromsø-háskóla um áhrif stjórnmálaástandsins í Bandaríkjunum á þróun norðurslóðamála. Prófessorinn segir að NATO-ríki í norðri verði að laga sig að því að ástandið í Bandaríkjunum sé ekki eins fyrirsjáanlegt og traustvekjandi eins og áður.

Peter Bakkemo Danilov tók viðtalið og spurði prófessorinn hvort hann teldi að Rússar og Kínverjar reyndu að nýta sér erfiða stöðu Bandaríkjamanna um þessar mundir. Rasmus Gjedssø Bertelsen svarar:

„Þetta kann að skapa einhver tækifæri fyrir Rússa og Kínverja til skamms tíma litið. Sé hins vegar litið á stóru myndina verður þetta þeim ekki til framdráttar þegar fram líða stundir.

Stefnumótun í utanríkis- og öryggismálum er ótrúlega flókin. Framkvæmd Bandaríkjanna á stefnu sinni á þessu sviði hefur gífurlega miklar afleiðingar fyrir hvert einasta land heims.

Þetta snýst ekki um hvort þú sért sammála stefnunni eða ekki. Stöðugleiki í Bandaríkjunum er ekki aðeins mikilvægur fyrir NATO. Það er einnig mikilvægt fyrir Rússland og Kína að stjórnkerfi Bandaríkjanna í utanríkismálum virki og sé metnaðarfullt.“

Þá minnir blaðamaðurinn á að bandarísk og bresk herskip hafi siglt inn á Barentshaf í byrjun maí í fyrsta sinn frá því um miðjan níunda áratuginn. Bertelsen telur að þetta hafi raskað stöðugleika á svæðinu, þar sem þarna hafi verið tundurspillir með gagneldflaugakerfi á ferð. Þetta geti kallað á svar af hálfu Rússa sem hafi litið á þetta sem markvissa ögrun í sinn garð.

Svar Rússa sé að boða til flotaæfingar á Noregshafi í júní og júlí. Bertelsen segir:

„Allt sem snýr að kjarnorkuvopnum, gagnkvæmri fælingu og strategískum stöðugleika snertir mjög tæknilega þætti öryggisstefnunnar. Það krefst hágæða og stöðugra stjórnkerfa hjá báðum aðilum að fara með þessa þætti á öruggan og skynsamlegan hátt. Að ekki sé þannig að verki staðið hjá báðum aðilum skapar hættu.

Að viðhalda strategískum stöðugleika á norðurslóðum er annað en að stjórna [sjónvarps]þættinum Lærlingurinn (e. The Apprentice).“

tkg_labyrint
Séð yfir háskólasvæðið í Tromsø

Blaðamaðurinn segir að COVID-19-faraldurinn skapi vandræði um heim allan án þess að Bandaríkjamenn veiti þar forystu, þetta hafi ekki gerst fyrr á síðari tímum. Hann spyr: Hvaða áhrif hafa logandi Bandaríki á öryggismál norðurslóða? Bertelsen svarar:

„Annars vegar sjáum við risaveldið Bandaríkin sem býr yfir gífurlegri hæfni og getu og hins vegar sjáum við ringulreið á efsta stigi stjórnkerfisins. Þetta hefur auðvitað áhrif á öryggis- og utanríkisstefnu landsins og þar með norðurslóðir.

Í Bandaríkjunum erum við um þessar mundir vitni að samfélagslegri og lýðræðislegri kreppu sem birtist í forsetakjöri Donalds Trumps. Þetta birtist einnig í starfsháttum æðstu stjórnar landsins. Þegar upplausn ríkir á efsta stjórnstigi Bandaríkjanna hefur það áhrif á allt stjórnmálakerfið og samfélagið.“

Blaðamaður spyr hvaða áhrif þetta ástand í Bandaríkjunum hafi til langframa á öryggisstefnu norðurslóða. Bertelsen svarar:

„Í augum Rússa og Kínverja verða Bandaríkjamenn áfram öflugir andstæðingar en hæfni þeirra hefur minnkað og gerðir þeirra eru ekki eins fyrirsjáanlegar og áður.“

Bertelsen telur að upplausnin sem Trump hefur skapað í stjórnkerfinu og bandarísku samfélagi eigi eftir að versna. Hann segir að í NATO-löndunum á norðurslóðum, Noregi, Danmörku ( þar með Færeyjum og Grænland) og á Íslandi verði áfram litið á Bandaríkjamenn sem öfluga bandamenn og samstarfsaðila en ekki eins fyrirsjáanlega og traustvekjandi og áður.

„Ég tel umtalsverðar líkur á að Trump verði endurkjörinn. Það hefur ekki tekist að leysa úr félagslegu og lýðræðislegu kreppunni sem tryggði honum sigur í upphafi.

Í þessu felst að í Bandaríkjunum magnast andstæðunnar enn frekar: annars vegar er þjóðin mjög hæf og sækir fram með nýsköpun og hins vegar lýtur hún forystu stjórnkerfis í upplausn,“ segir Rasmus Gjedssø Bertelsen prófessor.

 

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …