Home / Fréttir / Norðurslóðaöryggi rætt í Washington

Norðurslóðaöryggi rætt í Washington

Odd Roger Enoksen, varnarmálaráðherra Noregs, og Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, í Washington 17. nóvember 2021.

Nýr varnarmálaráðherra Noregs, miðflokksmaðurinn Odd Roger Enoksen, hitti Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Noregs, í Washington þriðjudag 16. nóvember. Viðræður þeirra snerust einkum um stöðu öryggismála á norðurslóðum. Ætla Norðmenn að eiga frumkvæði að því að efla samhæfingu í samstarfi undir hatti NATO á norðurslóðum.

Eftir fundinn sagði norski ráðherrann að miklu skipti að Bandaríkjamenn hefðu þekkingu á því sem snerti öryggi Noregs og þau verkefni sem við Norðmönnum blöstu. Þekking Norðmanna á norðurslóðum væri einstök og þeir gætu lagt mikið af mörkum í þágu stöðugleika í eigin nágrenni.

Odd Roger Enoksen sagði:

„Ríkisstjórnin vill styrkja eigin varnir okkar í norðri. Við lítum jafnframt á NATO sem öryggistryggingu okkar. Við fögnum umsvifum Bandaríkjamanna og annarra bandamanna okkar í nágrenni okkar. Þegar umsvifin aukast vex þörfin fyrir góða samræmingu og samhæfingu til að tryggja sem mest áhrif.“

Í tilkynningu norska varnarmálaráðuneytisins um fund ráðherranna í Washington segir að aukin hernaðarumsvif Rússa valdi bæði Bandaríkjamönnum og Norðmönnum áhyggjum.

„Við getum vænst þess að Rússar haldi áfram að þróa og gera tilraunir með ný vopnakerfi í norðri,“ sagði Enoksen.

Á fundinum í Pentagon í Washington rituðu ráðherrarnir undir leiðarvísi um frekari þróun samstarfs milli sérsveita beggja landa.

„Sérsveitir okkar hafa staðið hlið við hlið í Afganistan. Hlutverk sérsveita er meira en áður í átakamynstri samtímans. Nú ætlum við að kanna hvernig við getum hagað samstarfi þessara sveita okkar án þess að um alþjóðlegar aðgerðir sé að ræða,“ segir Enoksen.

Enoksen sagði að norska ríkisstjórnin legði mikla áherslu á afvopnunarmál og eftirlit með vígbúnaði og vildi stofna til umræðna um þau mál í aðdraganda leiðtogafundar NATO í Madrid sumarið 2022. Hann vildi ræða þessi mál frekar við Austin. Jafnframt áréttaði Enoksen að Norðmenn stæðu heilshugar að baki kjarnorkuvopnastefnu NATO og þeir teldu einhliða afvopnun ekki þá leið sem ætti að fara.

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …