Í lok síðasta árs gáfu bandaríski sjóherinn, landgönguliðið og strandgæslan út skýrslu um framtíðarhlutverk sitt: Advantage at Sea: Prevailing with Integrated All-Domain Naval Power. Nú hafa sjóherinn og landgönguliðið gefið út aðra skýrslu sem sérstaklega fjallar um markmið þeirra á norðurslóðum (e. Arctic) á næstu árum. Skýrslan, sem gefin var út 5. janúar síðastliðinn, nefnist: A Blue Arctic: A Strategic Blueprint for the Arctic.
Fjallað er um skýrsluna í frétt frá United States Naval Institude News (USNI News). Fram kemur að í skýrslunni sé þess getið að þar sem reikna megi með því að íshellan á Norður-Íshafi minnki á næstu árum auðveldi það siglingar um svæðið því verði að gera ráð fyrir að umferð um það aukist til muna. Vöruflutningaskip nýti sér siglingaleiðir þar, ferðamönnum fjölgi og nýting náttúruauðlinda á svæðinu verði meiri en nú.
Í skýrslunni segir einnig að Bandaríkjamenn geti nýtt sér breyttar aðstæður á norðurslóðum sér til hagsbóta en þær kunni líka að skapa vandamál. Auki stjórnvöld a ekki sýnileika Bandaríkjaflota á svæðinu og rækti tengslin við bandamenn sé hætt við að Rússar og Kínverjar styrki stöðu sína þar og ógni þeim gildum sem stjórnvöld í Washington berjast fyrir. Loftslagsbreytingar á svæðinu geri stöðuna enn viðkvæmari en ella.
Í samtali við fréttamenn sagði flotamálaráðherra Bandaríkjanna, Kenneth J. Braithwaite, að það væri ekki svo að herafli landsins hefði ekkert skipt sér af norðurslóðum síðustu áratugi. Ferðir hans hefðu hins vegar að mestu verið ósýnilegar, kafbátum og flugvélum. Nú væru hins vegar breyttir tímar og heraflinn þyrfti að verða sýnilegri á þessum slóðum. Þess mætti nú þegar sjá merki og nefndi ráðherrann nokkur dæmi m.a. nýlega för flugvélamóðurskipadeildar norður yfir heimskautsbaug. Herskipum fjölgi ef til vill ekki mikið á svæðinu á næstu árum heldur verði áhersla lögð á að sýna og sanna að heraflinn geti látið að sér kveða á þessum slóðum sé þess talin þörf.
Blaðamaður USNI News segir að fyrir sjóherinn verði að leysa nokkur verkefni áður en unnt sé að auka sýnileika hans á norðurslóðum. Í fyrsta lagi aðgang að fleiri höfnum og flugvöllum. Braithwaite telur nýframkvæmdir ólíklegri en nýtingu á hafnarmannvirkjum og flugvöllum annarra þjóiða. Þar sé litið til bandamanna Bandaríkjanna á norðurslóðum. Í grein USNI News segir að flotamálaráðherrann hafi sérstaklega nefnt herstöð Norðmanna í Evenes, þar geti bæði kafbátaleitarflugvélar (P-8) og herþotur athafnað sig.
Í öðru lagi þarf sjóherinn að eiga réttan búnað fyrir heimskautsvarnir. Í skýrslu sjóhersins og landgönguliðsins er minnst á þrjú svið sem þessir aðilar þurfa að huga að. Mikilvægt er að þróa búnað fyrir krefjandi aðstæður á Norður-Íshafi. Sjóherinn þarf einnig að fjárfesta í nýjum stjórntækjum og -kerfum. Braithwaite segir sum staðsetningartæki (GPS) ekki virka á þessum slóðum. Auk þess þarf sjóherinn að eiga skip fyrir norðurslóðasiglingar, hefðbundin skip og ómönnuð tæki. Um herskip hefur USNI News eftir Braithwaite að flotinn sé m.a. að huga að ísbrjótum. Hugsanlega verði þeir keyptir af Finnum.
Braithwaite segir að nú hafi verið lagður grunnur að því að sjóherinn marki sér skýra stefnu að þeim markmiðum stjórnvalda í Washington að stuðla að friðsamlegum samskiptum ríkja á norðurslóðum og vernda þar hagsmuni Bandaríkjanna.
Stefnumótunarskýrslurnar tvær er að finna hér:
Höfundur: Kristinn Valdimarsson