Home / Fréttir / Norðurslóðaljósleiðari milli Japans og Norður-Noregs – tenging til Íslands

Norðurslóðaljósleiðari milli Japans og Norður-Noregs – tenging til Íslands

Þetta er 17.000 km  þar sem ljósleiðarinn liggur.

Tryggð hefur verið fyrsta fjárfesting í fyrsta ljósleiðara sem lagður er neðansjávar um norðurslóðir. Fulltrúar fjárfestanna sem standa að baki framtakinu kynntu þetta föstudaginn 2. desember eftir að samningur hafði verið gerður við Norræna háskóla- og rannsóknanetið, NORDUnet.

Stefnt er að því að leggja 12 strengjapör ljósleiðara á hafsbotni 17.000 km leið frá Japan, norður fyrir Norður-Ameríku til Evrópu, það er til Norður-Noregs og Írlands. Áformað er að Ísland tengist þessum streng en frá því var skýrt á Arctic Circle (hringborði norðursins) í Hörpu um miðjan október.

Áður höfðu verið kynnt áform um ljósleiðara fyrir norðan Rússland í samvinnu annað stærsta síma- og fjarskiptafyrirtæki Rússlands, Megafon. Frá þeim var fallið í fyrra.

Talsmenn Cinia í Finnlandi segja að áhuginn á rússnesku leiðinni hafi horfið vegna tregðu rússneskra yfirvalda til að heimila lagningu strengsins á yfirráðasvæði sínu. Cinia er í forsvari fyrir Far North Fiber samsteypuna.

Að Far North Fiber standa auk Cinia, Far North Digital í Alaska og Arteria Networks í Japan.

Talið er að hraði í gagnaflutningum milli Frankfurt og Tokyo aukist um allt að 30% með nýja strengnum.

Norræna háskóla- og rannsóknanetið NORDUnet, sem er tengt neti íslenskra háskóla og rannsóknastofnana, Rannsókna- og háskólanet Íslands (RHnet), tilkynnti föstudaginn að það hefði ákveðið að verða meðal eigenda eins strengjapars af strengjapörunum 12 sem ætlað er að leggja á norðurslóðum.

Far North Fiber gefur ekkert upp um hve fjárfesting NORDUnet er mikil en Reuters-fréttastofan hefur eftir heimildarmanni að verðmæti hvers pars sé áætlað 100 milljón evrur auk 100 milljóna evra í viðhaldskostnað á 30 ára líftíma strengsins.

Nú eru ljósleiðaratengingar milli Evrópu og Asíu einkum um Súez-skurð. Vegna mikilla skipaferða er hætta á að strengir á þessum slóðum verði fyrir skaða. Með því að fara norðurleiðina margfaldast öryggið í þessum mikilvægu gagnaflutningu sem skipta æ meira máli fyrir heimsbúskapinn allan.

Finnska ríkið er meirihlutaeigandi í netfyrirtækinu Cinia. Fyrirtækið hefur meðal annars það hlutverk að tryggja sem flestar og öruggar flutningsleiðir til Finnlands. Þær liggja nú að mestu um Eystrasalt til meginlands Evrópu eins og leiðir Svía og Norðmanna. Fjölgun flutningsleiða og öryggi þeirra vegur nú æ þyngra við gæslu þjóðaröryggis landa.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …