Home / Fréttir / Norðurslóða- og norrænt samstarf við Rússa sett á ís

Norðurslóða- og norrænt samstarf við Rússa sett á ís

Sergei Lavrov tekur við formennsku í Norðurskautsráðinu af Guðlaugi Þór Þórðarsyni í Hörpu í maí 2021. Nú sitja Rússar einir og yfirgefnir með formennskuna.

Stríðið í Úkraínu hefur í för með sér að Rússar eru útilokaðir frá Barentsráðinu, frá samstarfi við Norræna ráðherraráðið og Eystrasaltsráðinu. Þá hafa öll samskipti innan Norðurskautsráðsins verið aflögð við Rússa en þeir fara nú með formennsku í því næstu 14 mánuði þar til Norðmenn taka við stjórninni.

„Hernaðarárásin á Úkraínu kemur alfarið í veg fyrir frekara samstarf,“ segir í yfirlýsingu Norrænu ráðherranefndarinnar.

Samstarf norrænu þjóðanna við Rússa sem hefur þróast á skipulegan hátt frá tíunda áratugnum slitnar núna. Án þess að nokkur vilji til endurreisnar þess sé í augsýn.

Norræna ráðherranefndin hefur stutt sameiginleg verkefni með Rússum í norðvestur Rússlandi í meira en 25 ár.

Eystrasaltsráðið þar sem sitja auk Íslendinga fulltrúar Danmerkur, Eistlands, Finnlands, Lettlands, Litháens, Noregs, Póllands, Svíþjóðar, Þýskalands og ESB hafa ákveðið að útiloka Rússa frá frekari þátttöku í ráðinu vegna tilefnislausrar og ólöglegrar árásar þeirra á Úkraínu.

Engin opinber yfirlýsing hefur borist frá Barentsráðinu. Starfsemi þess er hins vegar í biðstöðu og heldur ekki áfram í óbreyttri mynd vegna framgöngu Rússa gegn Úkraínumönnum.

Norðurskautsráðið er einnig óstarfhæft. Anniken Huitfeldt, utanríkisráðherra Norðmanna, segir að það hafi ekki verið létt ákvörðun að stíga þetta skref.

„Við verðum að bregðast við þessu, Rússar verða að skilja að lykillinn að endurreisn samskiptanna er í þeirra höndum,“ segir ráðherrann á vefsíðu Barents Observer.

Hún leggur áherslu á að um sé að ræða aðgerðir gegn rússneskum stjórnvöldum en ekki rússneskum almenningi.

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …