Home / Fréttir / Norðurleiðin opin allt árið

Norðurleiðin opin allt árið

Rússnesk yfirvöld stefna að því að árið 2022 eða 2023 verði Norðurleiðin svonefnda, siglingaleiðin milli Atlantshafs og Kyrrahafs, opin til siglinga allan ársins hring.

Leiðin er fyrir norðan Rússland og um þessar mundir er hún einkum notuð til flutninga á fljótandi jarðgasi (LNG) um níu mánuði á ári.

Rússar hafa fjárfest mikið í margvíslegum mannvirkjum við siglingaleiðina undanfarin ár. Þeir treysta á að ísinn í Norður-Íshafi haldi áfram að minnka vegna hlýnunar jarðar sem hefur meiri áhrif á þessum slóðum en annars staðar á jarðarkringlunni.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti sagði nú í september að Rússar ættu að hefja venjulega gámaflutninga á siglíngaleiðinni. Í fyrra voru fluttar 33 milljónir tonna eftir leiðinni en markmið Rússa er að árlega verði tonnafjöldinn 80 milljónir.

Juri Trutnev aðstoðarforsætisráðherra skýrði frá áformunum um heilsársiglingarnar mánudaginn 11. október í samtali við ríkissjónvarpsstöðina Rossija 24.

Þá hafa Rússar einnig kynnt áform um smíði ísbrjóta sem verði knúnir fljótandi jarðgasi auk ofur-ísbrjóta sem dugi til að þjóna skipum allan ársins hring á siglingaleiðinni.

 

Heimild: Reuter

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …