Home / Fréttir / Norðurleiðin: Flutningsmagn eykst vegna gasvinnslu – skipaferðum fjölgar ekki

Norðurleiðin: Flutningsmagn eykst vegna gasvinnslu – skipaferðum fjölgar ekki

 

Gashöfnin mikla í Sabetta á Jamal-skaga.
Gashöfnin mikla í Sabetta á Jamal-skaga.

Talið er að flutningsmagn á sjóleiðinni fyrir norðan Rússland, Norðurleiðinni, verði 29 milljónir tonna á árinu 2019, segir Nikolaj Monko, starfandi forstjóri rússnesku siglingastjórnarinnar á sjóðleiðinni.

Þetta kom fram á ráðstefnu í St. Pétursborg í fyrri viku en þá nam vöruflutningur á sjóleiðinni í ár alls 23,37 milljónum tonna.

Hér er um að ræða rúmlega 40% aukningu frá því í fyrra en alls voru flutt 20,18 milljón tonn á siglingaleiðinni í fyrra.

Um helmingur þess sem skip flytja á Norðurleiðinni er fljótandi jarðgas, LNG, sem fyrirtækið Novatek framleiðir á Jamal-skaga. Talið er að ársframleiðslan þar verði rúmlega 16 milljónir tonna á árinu 2019.

Þótt um þessa aukningu sé að ræða sjást hennar lítil merki þegar litið er til ferða á milli Kyrrahafs og Atlantshafs. Á fyrstu níu mánuði ársins 2019 voru aðeins 441.800 tonn flutt þessa leið. Þar var að stærstum hluta um flutninga með skipum kínverska skipafélagsins COSCO að ræða.

Eftir að Vladimir Pútin var endurkjörinn Rússlandsforseti árið 2018 gerði hann siglingar um Norðurleiðina að höfuðmáli og sagði að árið 2024 ætti að flytja 80 milljón tonn þessa leið.

Hvað sem tölum í ár líður hafa öll rússnesk ráðuneyti og allar rússneskar ríkisstofnanir lýst fullvissu um að 80 milljón tonna markmið Pútins náist árið 2024. Raunar gengur ráðuneyti Austurlanda fjær og norðurskautsins lengra og telur að vöruflutningarnir verði 94 milljónir tonna árið 2024.

Rosatom, kjarnorku-framleiðslufyrirtækið sem gegnir lykilhlutverki við að ýta undir siglingar á Norðurleiðinni, telur að flutningsmagnið árið 2024 verði 92,6 tonn.

Það eru í raun tiltölulega fá gas- og flutningaskip sem sigla á þessum slóðum. Siglingastjórnin segir að 1. október hafi alls 743 skip farið fram á heimild til að sigla Norðurleiðina sem er svipaður fjöldi og árið 2018. Allt það ár sóttu 808 skip um siglingaheimild, næstu fimm ár þar á undan var fjöldinn 660 til 730 skip.

Auk þess ber að hafa í hug að aðeins takmarkaður fjöldi skipanna sem fer Norðurleiðina flytur varning. Um helmingurinn er dráttarbátar og þjónustuskip að mestu tengd gasvinnslunni.

 

Heimild: Barents Observer.

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …