Home / Fréttir / Norðurfloti Rússa til móts við NATO-skip

Norðurfloti Rússa til móts við NATO-skip

Rússneska freigátan Admiral Gorshkov.

Tvær freigátur úr rússneska Norðurflotanum ásamt einu landgönguskipi hafa verið send í vestur og suður til móts við flota undir merkjum NATO sem nú siglir norður með strönd Noregs.

Freigáturnar eru nýjustu stóru herskip rússneska flotans, Admiral Kasatonov og Admiral Gorshkov. Þær eru báðar vopnaðar Tsirkon-flaugum, ofurhljóðfráum vopnum sem sagt er að dragi um 1.000 km. Það hefur þó ekki sannast í tilraunaskotum flauganna.

Vestur af strönd Norður-Noregs taka herskip frá nokkrum NATO-löndum þátt í heræfingunni Steadfast Defender 2024 sem er stærsta æfing NATO í norðurhluta Evrópu í tæp 40 ár. Skipin eru nú á leið norður til þátttöku í einum þætti stóru NATO-æfingarinnar, hann nefnist Nordic Response og er undir stjórn Norðmanna. Þar er æfð samhæfing herja Norðmanna, Svía og Finna með liðsauka sem berst af hafi.

Í NATO-flotanum eru rúmlega 50 kafbátar, freigátur, korvettur, flugmóðurskip og ýmis landgönguskip.

Norðmenn fylgjast náið með ferðum rússnesku skipanna. Að morgni föstudagsins 1. mars flaug norsk P-8 Poseidon eftirlitsflugvél austur með Kólaskaganum.

Fyrr í vikunni sagði stjórn Norðurflotans að rússnesk Il-38 eftirlitsvél hefði flogið yfir Barentshaf. Samkvæmt annarri heimild var langdræg rússnesk eftirlitsvél, Tu-142, á lofti skammt frá Svalbarða.

Í undirdjúpunum sveima kafbátar frá NATO-ríkjum og Rússlandi og stunda eins konar feluleik.

Hlutverk áhafnarinnar um borð i Admiral Gorshkov verður að leita uppi og fylgjast með tilbúnum óvinakafbátum. Þessir bátar koma úr Norðurflotanum en höfuðstöðvar hans eru í Severomorsk á Kólaskaga – við Barentshaf. Áhöfnin um borð í Admiral Kasatonov sinnir svipuðu verkefni.

Þá nota liðsmenn Norðurflotans skipið Ivan Gren til að æfa landgöngu og varnir gegn neðansjávar-skemmdarverkum við ströndina auk þess að kynnast siglinaleiðum strandhéraða Barentshafs.

 

 

Heimild: Barents Observer

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …