
Kjörsókn var aðeins um 35% í þjóðaratkvæðagreiðslunni í Makedóníu sunnudaginn 30. september um breytingu á heiti landsins í Lýðveldið Norður-Makedónía. Meira en 90% þeirra sem greiddu atkvæði samþykktu samninginn við Grikkland sem breytir nafni landsins í Norður-Makedóníu.
Zoran Zaev, forsætisráðherra Makedóníu, sagði að hann mundi nú stíga næsta skref og leggja málið fyrir þing landsins.
Spurningin sem lögð var fyrir kjósendur var þessi: „Styður þú aðild að NATO og Evrópusambandinu með því að samþykkja samning milli Lýðveldisins Makedóníu og Lýðveldisins Grikklands?“
Til að þjóðaratkvæðagreiðslan yrði bindandi þurftu að minnsta kosti 50% að taka þátt í henni. Forseti landsins, stjórnarandstaðan og ókunnir aðilar í netheimum hvöttu fólk til að sitja heima. Þing Makedóníu hefur vald til að breyta stjórnarskránni og þar með heiti landsins. Þingmenn eru 120 og þarf samþykki 2/3 þeirra til að stjórnarskrárbreyting nái fram að ganga. Fyrir atkvæðagreiðsluna höfðu 73 þingmenn lýst stuðningi við nýja nafnið og vantað því sjö til að tryggja að það verði samþykkt á þingi.
Zoran Zaev forsætisráðherra hvatti til stuðnings við samkomulagið sem hann gerði við Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands. Batt það enda á 27 ára deilu um nafnið á makedóníska lýðveldinu en hérað í Grikklandi heitir Makedónía.
Án samkomulags um heiti á lýðveldinu fyrir norðan Grikkland beita Grikkir neitunarvaldi gegn aðild Makedóníumanna að NATO og ESB. Rússar vilja hvorugt og hafa því beitt sér gegn samkomulaginu og fyrir því að það sé fellt.
Fjármálakreppa hefur ríkt í tvö ár í Makedóníu og atvinnuleysi er meira en 20%, eitt hið mesta á Balkanskaga, meðal-mánaðarlaun í landinu eru um 400 dollarar, þau lægstu á svæðinu.
Gjorge Ivanov, forseti Makedóníu, líkti þjóðaratkvæðagreiðslunni við „sögulegt sjálfsmorð“ í ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna fimmtudaginn 27. september. Hann lýsti kröfunni um nafnbreytinguna sem ritskoðun heimsins og sjálfsritskoðun sameiginlegrar samvisku Makedóníumanna. „Þetta er ofbeldi gagnvart sögulegri arfleifð okkar. Það eru til hundruð þúsunda skjala og vitnisburða í skjalasafni Sameinuðu þjóðanna sem sýna hvernig gríska ríkið kom fram við Makedóníumenn í Grikklandi. Nú vill … gríska ríkið gera það sama við Makedóníumenn í Lýðveldinu Makedóníu.“
Andrej Zernovski vara-utanríkisráðherra Makedóníu, sem tilheyrir stjórnarflokki Zaevs, gekk út úr sal allsherjarþingsins til að mótmæla ræðu forsetans. Sama gerðu skoðanabræður hans sem styðja aðild að NATO og ESB.
Þegar borgarstjórinn í Skopje, höfuðborg Makedóníu, var spurður hvernig hann ætlaði að haga atkvæði sínu sagði hann: „Höfnum við heitinu Norður-Makedónía, breytumst við í Norður-Kóreu.“