Home / Fréttir / Norður-Kóreumenn segjast geta grandað bandarísku flugmóðurskipi í einu höggi

Norður-Kóreumenn segjast geta grandað bandarísku flugmóðurskipi í einu höggi

Flugmóðurskipið Carl Wilson við Indónesíu.
Flugmóðurskipið Carl Wilson við Indónesíu.

Norður-Kóreumenn sögðu sunnudaginn 23. apríl að þeir væru til þess búnir að sökkva bandarísku flotadeildinni undir forystu flugmóðurskipsins Carls Vinsons til að sýna hernaðarmátt sinn. Orð í þessa veru féllu þegar tvo japönsk herskip sigldu til æfinga með flotadeildinni á vesturhluta Kyrrahafs.

Flotadeildin stefnir í átt að Kóreuskaga að fyrirmælum Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. Spenna í samskiptum Bandaríkjamanna og Norður-Kóreumanna hefur aukist undanfarið vegna kjarnorkuvopnatilrauna í Norður-Kóreu og hótana af hálfu ráðamanna landsins í garð Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra.

Ekki hefur verið gefið upp hvar flotadeildin er á þessari stundu.

„Byltingarher okkar er til þess búinn að sökkva kjarnorkuknúnu flugmóðurskipi Bandaríkjanna með einu höggi,“ sagði í ritstjórnardálki blaðsins Rodong Sinmun, málgagni Verkamannaflokks N-Kóreu, valdaflokks landsins.

Í blaðinu er flugmóðurskipinu líkt við „risaskepnu“ og sagt að með því að veita því náðarhöggið mundi „her okkar sýna raunverulegan mátt sinn“.

Ritstjórnargreinin birtist á blaðsíðu þrjú í blaðinu en fyrstu tvær síður þess voru helgaðar skoðunarferð alræðisherrans Kims Jong-uns um svínabú.

Það dró ekki úr spennunni milli Bandaríkjamanna og N-Kóreumanna að bandarískur ríkisborgari var handtekinn föstudaginn 21. apríl á alþjóðaflugvellinum í Pyongyang, höfuðborg N-Kóreu, þegar hann var á leið úr landi. Norður-Kóreustjórn hefur nú fjóra bandaríska ríkisborgara í haldi.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …