
Bandarískir leyniþjónustumenn segja að nýjar upplýsingar bendi til þess að Norður-Kóreustjórn ætli ekki að afsala sér kjarnorkuvopnum að fullu og öllu. Hún leiti þess í stað leiða til að fela hluta vopna sinna og einnig leynilegar vopnasmiðjur.
The Washington Post (WP) birti frétt um þetta sunnudaginn 1. júlí. Efni hennar stangast á við fullyrðingar Donalds Trumps Bandaríkjaforseta eftir fund hans með Kim Jong-un, einræðisherra N-Kóreu, í Singapúr 12. júní 2018. Forsetinn sagði þá að ekki stafaði „lengur nein kjarnorkuógn“ af N-Kóreu. Hann hefur síðan hvað eftir annað hreykt sér af „miklum árangri“ af fundinum.
Leyniþjónustumenn og sérfræðingar um málefni N-Kóreu hafa almennt verið varkárari í yfirlýsingum sínum. Þeir hafa minnt á að óljós vilyrði Kims um kjarnorkuafvopnun séu í ætt við það sem forfeður hans sögðu um málið í sinni tíð samhliða því sem þeir héldu með leynd áfram kjarnorkuvopnavæðingunni.
WP ber fyrir sig fjóra embættismenn sam hafa séð eða fengið frásagnir um ný gögn sem safnað hefur verið frá 12. júní. Bandaríska sjónvarpsstöðin NBC flutti fréttir um svipað efni föstudaginn 29. júní.
Talið er að í N-Kóreu gefi stjórnvöld upp rangar tölur um fjölda sprengjuodda og eldflauga og gerð og fjölda þeirra starfsstöðva sem þau reka í þeirri trú að Bandaríkjastjórn skorti upplýsingar um raunverulega stöðu mála. Bendir WP á að Bandaríkjamenn hafi nákvæmar upplýsingar um eldflauga- og vopnaeign N-Kóreumanna og hafi þróað hátæknikerfi til að fylgjast með framvindu á þessu sviði hjá þeim.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandríkjanna, viðurkennir að það kunni að taka mörg ár að hrinda í framkvæmd samningi um útrýmingi kjarnorkuvopna N-Kóreu. Leiðtogar landsins líti á vopnin sem líftryggingu sína. Ráðherrann sagði við leyniþjónustunefnd öldungdeildar Bandaríkjaþings miðvikudaginn 27. júní að hann gæti ekki greint frá einstökum efnisþáttum viðræðna við embættismenn N-Kóreu eftir fundinn 12. júní. Það kynni að spilla framgangi samtalanna.
Í svari við spurningu um fullyrðingu Trumps um að ekki stafaði lengur nein hætta frá N-Kóreu sagði Pompeo að forsetinn hefði sagt að hættan hefði minnkað. „Á því leikur enginn vafi,“ sagði ráðherrann.