Home / Fréttir / Norðmenn vilja vera við öllu búnir á norðurslóðum – umsvif Rússa mikil

Norðmenn vilja vera við öllu búnir á norðurslóðum – umsvif Rússa mikil

Noregur

Umræður um öryggismál Noregs eru nú meiri meðal Norðmanna en þær hafa verið undanfarin 20 ár og þær snúast um viðbúnað norskra yfirvalda og NATO vegna sameiginlegra varna við nýjar hernaðarlegar aðstæður, sagði dr. John Andreas Olsen, hershöfðingi í norska flughernum, sérfræðingur norska varnarmálaráðuneytisins um öryggismálastefnu Noregs og gestakennari við Varnarmálaháskóla Svíþjóðar (e. Swedish Defence University), í erindi sem hann flutti í Norræna húsinu þriðjudaginn 19. maí í málstofu á vegum norska sendiráðsins og Rannsóknaseturs um Norðurslóðir við Háskóla Íslands.

John Andreas Olsen minnti á nýlega sérfræðingaskýrslu um norsk öryggismál sem unnin var að frumkvæði norska varnarmálaráðuneytisins og kynnt undir lok apríl 2015. þar væri brugðið upp mynd af því sem gera þyrfti til að tryggja öryggi Noregs við núverandi aðstæður. Þá mundi norska ríkisstjórnin gefa út hvítbók um varnarmál vorið 2016 en þar yrði mótaður rammi um þróun norska hersins og viðbúnað hans á komandi árum. Allt krefðist þetta víðtæks mats á stöðu öryggismála og umræðna til að skapa sem víðtækasta sátt um þennan grundvallarþátt norsks samfélags og í samstarfi Norðmanna við aðrar þjóðir – þar skipti samstarf við Íslendinga meðal annars miklu.

Hið sama á við um þjóðaröryggisstefnu Norðmanna og Íslendinga að þar skiptir aðildin að NATO sköpum. Rakti Olsen breytingar á NATO og sagði áherslur í starfi bandalagsins vera að breytast. Meira væri nú rætt um sameiginlegt öryggi en gert hefði verið á undanförnum árum þegar áherslan hefði verið á viðbrögð við hættuástandi með því að senda herafla til Afganistan eða til árása á Líbíu. Þessi tími væri liðinn og í hans stað hafið skeið þar sem athyglin beindist að vörnum bandalagssvæðisins sjálfs enda hefði það gerst í fyrsta sinn frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar að beitt hefði verið hervaldi í Evrópu til að leggja undir sig landsvæði annars ríkis og vísaði hann þar til ástandsins í Úkraínu og innlimun Rússa á Krímskaga vorið 2014.

Erindi Olsens hét: Öryggisáskoranir á norðurslóðum frá sjónarhorni Norðmanna.  Hann beindi því athygli sérstaklega að norðurslóðum og auknum umsvifum Rússa þar. Sagði hann þróunina á svæðunum fyrir austan landamæri Noregs og á hafinu undan ströndum Noregs eða utan lofthelgi Noregs aðeins minna á það sem þar gerðist á tíma sovéska hersins. Munurinn væri þó sá að nú væri her Rússa mun öflugri en á Sovéttímanum og ásetningur þeirra að skapa kjarnorkukafbátum sínum skjól allt frá Íslandi að Kóla-skaga skýrari.

Gæði búnaðar rússneska heraflans væru mikil, herinn væri betur þjálfaður en hann hefði áður verið. Þá bæri að hafa í huga að Rússar hefðu kynnt þá breytingu á stefnu sinni varðandi beitingu kjarnorkuvopna að hún mundi ekki taka mið af stigmögnun átaka heldur yrði þeim beitt sem hluta af hernaðarátökum ef til þeirra kæmi. Þetta væri í andstöðu við það sem áður var og þá stefnu sem fylgt væri af NATO.

Olsen sagði einnig athyglisvert og áhyggjuefni að Rússar efndu til tíðra heræfinga á norðurslóðum án þess að tilkynna fyrirfram að til þeirra kæmi. Þeim bæri ekki að tilkynna slíkar æfingar hins vegar kæmi ekki neinum innan NATO til hugar að hefja heræfingu án þess að hún væri kynnt fyrirfram. Það væri liður í að skapa traust milli ríkja.

Í erindinu kom fram að Norðmenn ættu ekki í útistöðum við neinn um ráð yfir hafsvæðum í Norður-Íshafi eða um markalínur þar eftir að 40 ára deila við Rússa vegna gráa svæðisins í Barentshafi leystist með samkomulagi fyrir fáeinum árum. Samskipti við Rússa á tæplega 200 km löngum sameiginlegum landamærum þjóðanna væru góð. Norðmenn fylgdu enn sömu stefnu og áður að leyfa hvorki kjarnorkuvopn né erlendar herstöðvar í landi sínu.

Stefna norskra stjórnvalda er að sýna sem mestan styrk á norðurslóðum og í því skyni hafa þau meðal annars boðið til mestu heræfingar NATO á árinu 2018 í landi sínu og undan ströndum Noregs. Þar verða sameiginlegar varnir æfðar. Á sambærilegri æfingu sem nú fer fram í Spáni og Portúgal er áherslan á viðbrögð við hættuástandi.

 

 

 

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …