
Varnarmálaráðherrar Noregs, Svíþjóðar og Finnlands rituðu miðvikudaginn 23. september undir samkomulag um að auka hernaðarlegt samstarf sitt á norðurslóðum. Sama dag mótmæltu Svíar því við rússneska stjórnarerindreka í Stokkhólmi að 14. september hefðu tvær korvettur rússneska herflotans farið inn í sænska landhelgi skammt frá Gautaborg.
Varnarmálaráðherrarnir sátu utan dyra í Porsangmoen-herstöðinni nyrst í Noregi um 200 km frá Rússlandi þegar þeir rituðu undir samkomulagið sem gert innan ramma norræna varnarsamstarfsins, NORDEFCO og snýr að aukinni samvinnu um hernaðarlegar aðgerðir.
Í tilefni af undirrituninni sagði Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, við T4-sjónvarpsstöðina:
„Þetta tengist að sjálfsögðu ástandi öryggismála sem hefur breyst undanfarið. Við erum vitni að auknum flotaherstyrk Rússa á Múrmansk-svæðinu auk annars viðbúnaðar þeirra, við erum vitni að því að stofnuð er herstöð nálægt finnsku landamærunum … hvert sem litið er á norðurslóðum sjáum við Rússa styrkja stöðu sína.“
Í skjalinu eru einnig ákvæði um að koma á fót þríhliða stefnumótandi stýrihópi með aðild varnarmálaráðuneytanna auk þess sem skipaður verði þríhliða hópur til að gera strategískar áætlanir.
Frank Bakke-Jensen, varnarmálaráðherra Noregs, segir að samkomulagið stuðli að auknum sameiginlegum heræfingum á norðanverðum Skandinavíu-skaga. Hann er sömu skoðunar og sænski varnarmálaráðherrann að vegna aukinni hernaðarumsvifa Rússa verði að styrkja norrænt varnarsamstarf.
Í samtali við norsku vefsíðuna Barents Observer sagði norski varnarmálaráðherrann að menn yrðu að horfast í augu við þá staðreynd að yrði hættuástand eða kæmi til átaka í framtíðinni snerti það ekki aðeins eitt Norðurlandanna heldur þau öll og þess vegna ynnu þau sífellt æ meira saman.
Atle Staalesen