Home / Fréttir / Norðmenn stórauka útgjöld til varna í norðri

Norðmenn stórauka útgjöld til varna í norðri

Jonas Gahr Støre forsætisráðherra og Odd Roger Enoksen varnarmálaráðherra í norska stórþinginu 18. mars 2022.

Norska ríkisstjórnin tilkynnti föstudaginn 18. mars að útgjöld til norskra hermála yrðu aukin um 3 milljarða NOK í ár (45 mia ISK) í því skyni að styrkja varnir Noregs í norðri, nálægt landamærum Rússlands.

„Þótt ekki sé líklegt að Rússar ráðist á Noreg verðum við að átta okkur á að nágranni okkar í austri er orðinn hættulegri og óútreiknanlegri,“ sagði Odd Roger Enoksen varnarmálaráðherra á blaðamannafundi þegar hann tilkynnti ákvörðun ríkisstjórnarinnar.

Féð verður notað til að styrkja viðveru norska flotans í norðri, auka þjálfun hermanna og varaliða, auka birgðir skotfæra, eldsneytis og tækja. Þá verður ennig lögð áhersla á að bæta aðstöðu til að taka á móti liðsauka frá bandalagsþjóðum, styrkja netvarnir og upplýsingaöflun.

Sameiginleg landamæri Noregs og Rússlands eru 196 km löng. Þá liggur lína á milli lögsögu landanna í Barentshafi en um legu hennar var deilt áratugum saman.

Norski varnarmálaráðherrann sagði að Norðmenn yrðu að láta meira að sér kveða hernaðarlega í norðri. „Rússar hafa verulega öryggishagsmuni á okkar svæði og norðurslóðir skipta Rússa einnig efnahagslega mjög miklu.“

Umfangsmikil NATO-æfing undir forystu Norðmanna, Cold Response-æfingin, hófst í og við Norður-Noreg 14. mars og stendur fram í apríl.

Emilie Enger Mehl, dómsmálaráðherra Noregs, sagði 18. mars að norska öryggislögreglan, PST, teldi hættu á njósnum og netárásum hafa aukist eftir innrás Rússa í Úkraínu.

Dómsmálaráðherrann sagði að gerðar yrðu ráðstafanir til auka vernd norsks samfélags fyrir stafrænum árásum.

Jonas Gahr Støre forsætisráðherra sagði að auknu útgjöldin til hefðbundinna hervarna, njósna og netvarna væru hluti víðtækari viðbragða ríkisstjórnar sinnar við Úkraínustríðinu.

Hann sagði á stórþinginu föstudaginn 18. mars að Norðmenn byggjust við um 35.000 flóttamönnum frá Úkraínu á árinu 2022 en búið yrði í haginn fyrir allt að 100.000 flóttamenn þaðan.

Í aðgerðum norsku stjórnarinnar felst einnig stuðningur við atvinnustarfsemi í Norður-Noregi, einkum austurhluta Finnmerkur, þar sem áhrifa viðskiptabanns við Rússa gætir mest. Norska þingið hefur lögfest aðild Norðmanna að öllum refsiaðgerðum ESB sem ákveðnar voru fyrir 9. mars 2022.

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …