Home / Fréttir / Norðmenn stórauka land- og netvarnir með nýjum áætlunum

Norðmenn stórauka land- og netvarnir með nýjum áætlunum

Frank Bakke-Jensen varnarmálaráðherra og Erna Solberg forsætisráðherra kynna nýju varnaráætlunina.
Frank Bakke-Jensen varnarmálaráðherra og Erna Solberg forsætisráðherra kynna nýju varnaráætlunina.

Norska ríkisstjórnin kynnti föstudaginn 17. apríl nýja langtímaáætlun fyrir norska herinn. Í ræðu sem Erna Solberg forsætisráðherra flutti minnti hún á að undir forystu hennar hefði verið mótuð ný langtímastefna með fjögurra ára áætluninni sem kynnt var árið 2016. Á árunum 2017 til 2020 hefðu útgjöld til varnarmála verið aukin um 8 milljarða norskra króna. Nú væri stefnt að því að árið 2028 yrðu raunútgjöldin 16,5 milljörðum nkr. hærri en núna.

Á undanförnum árum hefðu umsvif norska hersins aukist, meira væri æft, meira væri siglt og meira flogið. Æfingar hefðu aukist með bandalagsþjóðum. Þá legðu Norðmenn einnig meira að mörkum til alþjóðlegra aðgerða en áður.

Forsætisráðherrann sagði að áfram yrði haldið við að endurnýja og styrkja norska herinn með nýjum orrustuvélum, kafbátum, eftirlitsflugvélum, björgunarþyrlum og stórskotavopnum.

Nú væri mikilvægara en nokkru sinni að Norðmenn sýndu vilja sinn til að standa vörð um mikilvægustu gildi sín: lýðræði, réttarríkið og mannréttindi. Í því skyni væri varnarmáttur hersins efldur. Hann samhliða aðild að NATO væri besta vörn þjóðarinnar. Við þessu yrði ekki hróflað.

Samfélagsöryggi

flutti einnig ræðu á blaðamannafundinum þega langtímaáætlunin um varnir Norges var kynnt. Hann minnti á gildi allsherjarvarna, totalforsvar, nú á tímum þegar skilin milli öryggis ríkisins út á við og samfélagsins inn á við væru óljósari en áður. Þess vegna væri lögð áhersla á það með áætluninni nú að hún félli að því sem á norsku er nefnt samfunnssikkerhetsmeldingen, það er tillaga um samfélagsöryggi sem lögð er fyrir norska þingið.

Varnarmálaráðherrann hefur á öðrum stað fjallað um það sem fellur undir samfélagsöryggismál, það er nýja öryggishugtakið sem afmái skilin milli öryggis út á við og inn á við.

Hann segir að í totalforsvar, allsherjarvörnum, felist að liðsafli hers og borgaralegra stofnana taki höndum saman til að koma í veg fyrir hættuástand og til að hafa stjórn slíku ástandi, það sama eigi við um vopnuð átök og stríð. Tryggja verði nægjanlega orku og eldsneyti, matvæli og vatn. Heilbrigðiskerfið verði að standast mikla áraun vegna farsótta og stórslysa. Flutninga- og fjarskiptakerfi verði að virka þegar mest sé þörfin. Þá verði ekki síst að standa vel að allri stjórnsýslu í hættuástandi.

Þá telur norski varnarmálaráðherrann að styrkja verði starfsemi eftirgrennslanastofnana, upplýsingamiðlun og samhæfingu til að greina þær hættur sem kunni að steðja að Norðmönnum. Stofna verði reglulega til æfinga og þjálfunar til að efla varnir gegn stafrænum ógnum í netheimum. Þess vegna hafi dóms- og almannavarnaráðuneytið og varnarmálaráðuneytið unnið að því að semja varnaráætlanir á þessu sviði með því að stilla saman borgaralegar og hernaðarlegar gagnráðstafanir. Aðeins sé unnt að snúast gegn stafrænum ógnum með því að borgaralegir og hernaðarlegir aðilar, opinberir aðilar og einkaaðilar í alþjóðasamstarfi skilgreini forgangsatriði í samvinnu sinni.

Varnarmálaráðherrann lýsir því sem einum mikilvægasta þættinum í stefnumörkun norsku ríkisstjórnarinnar á sviði stafrænna netvarna að ákveðið hafi verið að verja 497 m. nkr. til nasjonale tekniske sikkerhetstiltak, til tæknilegra öryggisráðstafana á heimavelli. Undir merkjum þjóðaröryggis og einnig til að sporna gegn glæpum á netinu verða varnir í þágu netöryggis efldar í Noregi. Þá er ætlunin að stofna til allsherjar norskrar æfingar í ár og verður fyrirtækjum boðin aðstoð vegna æfinga á eigin vegum. Markmiðið er að efla styrk fyrirtækjanna sjálfra til að koma í veg fyrir og bregðast við óvæntum árásum eða atvikum vegna netsamskipta og halda sig á þann veg innan þess ramma sem mótaður er um norskt netöryggi.

 

 

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …