Home / Fréttir / Norðmenn stærstu gasseljendur Þjóðverja – 33% markaðshlutdeild

Norðmenn stærstu gasseljendur Þjóðverja – 33% markaðshlutdeild

Robert Habeck. varakanslari Þýskalands og efnahagsráðherra, og Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, á blaðamannafundi 5. janúar 2023.

Á árinu 2022 keyptu Þjóðverjar 33% af jarðgasi sínu frá Noregi. Norðmenn hafa nú tekið við af Rússum sem stærstu gasseljendur til Þýskalands. Árið 2021 nam gassala Norðmanna til Þýskalands tæplega 20% af gasþörfinni þar.

Malte Humpert fjallaði um þessa auknu hlutdeild Norðmanna í gassölu til meginlands Evrópu í grein á norsku vefsíðunni High North News miðvikudaginn 11. janúar. Hér er stuðst við greinina.

Þar segir að gassala Norðmanna frá lindum í hafinu fyrir norðan heimskautsbaug muni aukast árið 2026 þegar gas taki að streyma í land frá Irpa vinnslusvæðinu 340 km fyrir vestan bæinn Bodø í Noregi. Þá komi einnig til sögunnar gas úr nýjum lindum í Barentshafi, þar á meðal einni sem fannst árið 2022 við hliðina á Goliat olíuvinnslusvæðinu.

Þjóðverjar hafa nú að mestum hluta aftengst rússneskum gasleiðslum og þar með opnast leið fyrir Norðmenn til að verða helsti gasseljandi þeirra. Norsk fyrirtæki nýta ekki aðeins gömul vinnslusvæði betur en áður heldur halda áfram leit að gasi á norðurslóðum til að standast kröfur markaðarins á fjórða áratug aldarinnar.

„Norðmenn flytja eins mikið gas til Þýskalands og þeir geta,“ sagði Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, á sameiginlegum blaðamannafundi með Olaf Scholz Þýskalandskanslara í ágúst 2022.

Gasflutningaleiðir Norðmanna til Þýskalands eru nokkrar. Bein leið er með Europipe og Norpipe gasleiðslunum. Um þær fara um 23% af heildarinnflutningi Þjóðverja á gasi. Óbein leið er í gegnum Belgíu og þaðan með Zeepipe til Þýskalands, um þá leiðslu fara 10% af gasinu sem Þjóðverjar nota.

Robert Habeck, varakanslari Þýskalands og efnahagsráðherra, var í Noregi fimmtudaginn 5. janúar og samdi þar við Norðmenn um að þeir létu Þjóðverjum í té „grænt“ vetni, að líkindum í gegnum leiðslu sem áform eru um að leggja frá Noregshafi til Norður-Þýskalands.

„Norðmenn eru nú mikilvægustu seljendur orku til okkar og verða það áfram á leiðinni til kolefnishlutlausrar framtíðar,“ sagði Habeck á blaðamannafundi í Noregi.

Þjóðverjar tóku í desember 2022 í notkun fyrstu afkælingar jarðgasstöð sína (e. LNG regasification) og ætla að opna aðra á árinu 2023. Með því að starfrækja þessar stöðvar geta Þjóðverjar einnig tekið á móti gasflutningaskipum (e. LNG tankers) frá Hammerfest nyrst í Noregi. Segir í grein High North News að engar pantanir hafi borist um LNG skipaflutninga frá Noregi.

Svona sjá Norðmenn fyrir sér gasflutningakerfið 2026.

Í nóvember 2022 tilkynnti norska ríkisfyrirtækið Equinor að það ætlaði að verja 1.44 milljörðum dollara til að hefja vinnslu á Irpa gaslindarsvæðinu fyrir norðan heimskautsbaug í Noregshafi um 340 km fyrir vestan Bodø.

Ætlunin er að gasið úr hafsbotnslindunum verði flutt inn í grunnvirki gasvinnslunnar í gegnum Aasta Hansteen pallinn sem er um 80 km fyrir austan Irpa. Þaðan verður gasið flutt í land í vinnslustöð í Nyhamna og þaðan um núverandi leiðslukerfi til viðskiptavina á meginlandi Evrópu og í Bretlandi.

Þýski gas- og olíuframleiðandi Wintershall Dea á 19% hlut í þessu verkefni. Ætlunin er að framleiðsla Irpa hefjist árið 2026 og magn í lindunum endist til 2039.

Talið er að magnið sem fæst frá Irpa dugi fyrir 2,4 milljón heimili á ári í sjö ár þegar framleiðslan er mest. Irpa er á 1.300 metra dýpi og eru fá norsk vinnslusvæði á meira dýpi.

Í desember 2022 tilkynnti Vår Energi, norski hluti ítalska orkurisans Eni, að fyrirtækið hefði fundið 9-21 milljarð rúmmetra af vinnanlegu gasi 27 km fyrir austan Goliat svæðið, olíuvinnslusvæði um 80 km frá Hammerfest.

Í grein High North News segir óljóst hvernig staðið verði að því að flytja gas úr nýjum lindum í Barentshafi til meginlands Evrópu. Á þessum slóðum er Melkøya LNG-vinnslustöðin. Nú er hún fullnýtt. Sérfræðingar segja að hugsanlega megi stækka hana, reisa nýja LNG-stöð eða leggja gasleiðslu.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …