Home / Fréttir / Norðmenn sluppu með olíuvinnslu-skrekkinn á ESB-þinginu

Norðmenn sluppu með olíuvinnslu-skrekkinn á ESB-þinginu

ESB-þingið að störfum.
ESB-þingið að störfum.

Norðmenn hafa látið verulega að sér kveða gagnvart ESB-þingmönnum undanfarna daga vegna atkvæðagreiðslu sem fór fram á ESB-þinginu í Strassborg fimmtudaginn 16. mars um norðurslóðastefnu ESB. Að henni lokinni önduðu Norðmenn léttar því að tvö ákvæði um bann við olíuborunum í norðurhöfum voru felld.

ESB-þingið samþykkti hins vegar að halda inni ákvæði sem bannar olíuboranir fyrir norðan hafísbrúnina, 301 greiddi atkvæði með þeirri tillögu en 289 á móti. Í frétt um samþykktina á vefsíðunni EUobserver segir að hún hafi lítil áhrif í Noregi þar sem  í norskum lögum sé nú þegar bann við borunum á hafíssvæðum.

Í frétt NTB-fréttastofunnar um málið segir að norska utanríkisráðuneytið, norska sendiráðið gagnvart ESB, norskir þingmenn, hagsmunagæsluaðilar fyrir norsk olíu- og gasfélög og Evrópuskrifstofa Norður-Noregs hafi skipulega beitt sér gagnvart ESB-þingmönnum til að fá þá til að útþynna ályktun sína.

Á hinn bóginn unnu umhverfisverndarsamtök eins og Bellona og Greepeace að því að fá ESB-þingmennina til að halda fast í ströng ákvæði ályktunarinnar.

Norðurslóðastefnan var rædd í ESB-þinginu að kvöldi miðvikudags 15. mars. Annar flutningsmaður ályktunarinnar, eistneski, frjálslyndi ESB-þingmaðurinn Urmas Paet, sem var hér á landi á vegum Varðbergs fyrir viku, minnti þingmenn á að ESB ætti mikið undir Norðmönnum ef ætlunin væri að minnka olíu- og gaskaup af Rússum. Hann sagði að virða bæri alþjóðalög og þar með hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna, samkvæmt honum hefðu strandríki fullveldisrétt til að nýta auðlindir á landgrunni sínu.

Hinn flutningsmaður ályktunarinnar, finnski mið-hægri ESB-þingmaðurinn Sirpa Pietikäinen, sagði við EUobserver að mið-hægri þingflokkurinn á ESB-þinginu, EPP, styddi ekki bann við olíuvinnslu í norðurhöfum.

Margir ESB-þingmenn sögðu í umræðum um málið að ESB-þingið gæti ekki gefið löndum utan ESB fyrirmæli um nýtingu auðlinda sinna. Jørn Dohrmann, ESB-þingmaður Danska þjóðarflokksins, sagði til dæmis að ESB ætti ekki að ákveða neitt um olíu og gas í löndum utan ESB.

Græningjar á ESB-þinginu sögðu á hinn bóginn að baráttan gegn olíuvinnslu í norðurhöfum skipti svo miklu að ekki væri unnt að virða rétt einstakra ríkja. Þetta sjónarmið varð undir í atkvæðagreiðslu í þinginu.

Lengst af vakti texti ályktunarinnar ekki áhyggjur Norðmanna á meðan hann var til umræðu í ESB-þingnefndinni. Það var ekki fyrr undir lok meðferðar málsins í nefndinni sem róttæku tillögurnar um bann voru lagðar fram innan hennar. Fjórir þingmenn frá Fimmstjörnuflokknum á Ítalíu og tveir græningjar, Dani og Finni, stóðu að baki þeim.

Þegar greidd voru atkvæði um ályktunina í nefndinni 31. janúar 2017 voru róttæku tillögurnar samþykktar með miklum meirihluta. Segir NTB að þá hafi norskir áheyrnarfulltrúar í nefndinni verið grandalausir og sættu norsk stjórnvöld harðri gagnrýni á heimavelli fyrir skort á aðgæslu.

Sirpa Pietikäinen sagði við NTB að fulltrúar Norðmanna hefðu ekki sýnt aðgæslu nógu snemma: „Ég held að það ráðist af skorti á þekkingu á pólitískum ferlum á ESB-þinginu.“

Hún minnir á að ályktunin sé auk þess ekki bindandi. „Hér er um skoðanamyndandi ályktun að ræða. Slíkar yfirlýsingar hafa vissulega þýðingu en ekki næstum því eins mikla þýðingu og ætla hefur mátt af áhyggjum Norðmanna,“ segir Pietikäinen við NTB.

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …