Home / Fréttir / Norðmenn saka Rússa um GPS-truflanir

Norðmenn saka Rússa um GPS-truflanir

Viðræður Norðmanna og Rússa í Osló.
Viðræður Norðmanna og Rússa í Osló.

 

„Við viðurkennum rétt Rússa til æfinga og þjálfunar, við getum hins vegar ekki samþykkt að þar með sé vegið að öryggi í norskri lofthelgi,“ sagði norska varnarmálaráðuneytið í svari til vefsíðunnar Barents Observer sem birtist mánudaginn 18. mars.

Ráðuneytið staðfestir að truflun Rússa á GPS-sendingum í landamærahéruðum beggja ríkja hafi verið á dagskrá tvíhliða fundar fulltrúa ríkjanna í Osló í fyrri viku.

„Að þessu hefur einnig áður verið vikið gagnvart rússneskum yfirvöldum eftir diplómatískum og hernaðarlegum leiðum og norsk stjórnvöld hafa miðlað nákvæmum upplýsingum um truflanirnar,“ sagði Birgitte Frisch, sérlegur ráðgjafi í varnarmálaráðuneytinu.

Aleksandr Kshimovskíj hershöfðingi var í forystu rússnesku sendinefndarinnar sem kom til Moskvu fimmtudaginn 14. mars til viðræðna við norska embættismenn. Áður höfðu norsk yfirvöld birt upplýsingar um endurteknar truflanir á GPS í Finnmörk og Trøms. Segja Norðmenn að Rússar standi að baki GPS-truflununum. Sergeij Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði þessar ásakanir reistar á „ímyndun“ og krafðist sannana frá Norðmönnum.

Ine Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, segir að þessar sannanir hafi verið lagðar fyrir Rússa.

Í fréttatilkynningu sem var birt eftir viðræðurnar í Osló var ekkert minnst á GPS-truflanir en sagt að rætt hefði verið „um tvíhliða hernaðarleg tengsl og herafla ríkjanna í norðri“.

Þá er tekið fram að hugað verði að leiðum til að koma í veg fyrir „atvik“ og að hugsanlega megi koma á beinu fjarskiptasambandi milli varnarmálaráðuneyta landanna.

Nokkur ár eru liðin frá því að fulltrúar Noregs og Rússlands hittust á fundi sem þessum. Samskipti stjórnvalda ríkjanna hafa verið í lágmarki síðan Rússar innlimuðu Krímskaga fyrir réttum fimm árum (18. mars 2014).

Nokkrum klukkustundum eftir að rússneska sendinefndin yfirgaf Osló lýsti norska utanríkisráðuneytið skoðun sinni á framgöngu Rússa gagnvart Úkraínu. Þar segir:

„Átjánda mars 2019 eru fimm ár liðin frá ólöglegri innlimun Rússa á Krím og Sevastopol. Norðmenn ítreka fordæmingu sína á innlimun Rússa á yfirráðasvæði Úkraínu og fara þess á leit við Rússa að þeir hverfi frá henni. Norðmenn telja höfuðmáli skipta að alþjóðalög séu virt í samskiptum ríkja.“

 

 

 

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …