Home / Fréttir / Norðmenn reka 15 Rússa úr landi – saka þá um að ógna norskum hagsmunum

Norðmenn reka 15 Rússa úr landi – saka þá um að ógna norskum hagsmunum

Anniken Huitfeldt, utanríkisráðherra Noregs, kynnir brottvísun Rússanna á blaðamannafundi 13. apríl 2023.

Norska ríkisstjórnin rak fimmtudaginn 13. apríl fimmtán rússneska sendiráðsmenn í Osló úr landi. Eru þeir sagðir leyniþjónustumenn og að athafnir þeirra séu ógn við öryggi Noregs. Rússneska sendiráðið segir ákvörðunina „ótrúlega óvinsamlega“.

„Athafnir þeirra ógna norskum hagsmunum,“ sagði Anniken Huitfeldt, utanríkisráðherra Noregs, þegar hún kynnti ákvörðunina um brottreksturinn.

Í fréttatilkynningu utanríkisráðuneytisins segir að mennirnir hafi í raun stundað njósnir og aðra leynilega starfsemi þótt þeir hafi verið skráðir sem sendiráðsstarfsmenn.

„Þessir 15 leyniþjónustumenn eru óæskilegir í landinu vegna þess að þeir hafa stundað starfsemi sem fellur ekki að skyldum þeirra sem stjórnarerindreka,“ sagði Huitfeldt.

Mennirnir verða að hverfa á brott frá Noregi innan skamms tíma.

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar er tekin með hliðsjón af stöðunni í öryggismálum sem hefur aukið ógnina af njósnum og leynilegri starfsemi Rússa.

Talsmaður rússneska sendiráðsins, Timur Tsjekanov, sagði við norska ríkisútvarpið, NRK: „Viðbrögðin eru mjög neikvæð. Þetta er nýtt ótrúlega óvinsamlegt skref sem verður svarað með gagnaðgerðum.“

Norski utanríkisráðherrann sagði að tengslin við Rússa gætu varla orðið verri:

„Við teljum okkur berskjaldaðri en áður og að starfsemi þeirra í Noregi valdi víðtækari skaða en áður.“

Norsk yfirvöld hafa lengi fylgst með athöfnum rússnesku sendiráðsmannanna fimmtán.

„Rússar eru helstu leynilegu ógnvaldarnir í Noregi. Við lítum það alvarlegum augum og nú grípum við til gagnaðgerða gegn rússneskri njósnastarfsemi í landinu. Við munum ekki þola að rússneskir leyniþjónustumenn starfi hér undir því yfirskyni að um sendiráðsstarfsmenn sé að ræða,“ sagði Huitfeldt.

Þegar utanríkisráðherrann var spurð hvað Rússarnir hefðu gert vísaði hún á norsku öryggislögregluna, PST.

Í apríl í fyrra ráku norsk stjórnvöld þrjá Rússa úr landi með ásökunum um njósnir. Þá svöruðu Rússar með því að senda þrjá norska sendiráðsmenn úr landi.

„Rússar hafa enga ástæðu til að grípa til gagnráðstafana gegn Noregi,“ sagði Huitfeldt. Engir norskir sendiráðsmenn stunduðu njósnir.

NRK segir að nú séu 19 norskir sendiráðsmenn í Rússlandi, þeir verði því fjórir, reki Rússar nú 15 þeirra á brott.

„Ég legg áherslu á að Norðmenn vilja eðlilegt stjórnmálasamband við Rússa og að rússneskir stjórnarerindrekar (n. diplomater) eru velkomnir í Noregi. Þær ráðstafanir sem við grípum nú til snúa einungis að óæskilegri leynilegri starfsemi,“ sagði Huitfeldt.

Norska ríkisútvarpið leitaði álits talsmanna stjórnarandstöðunnar í utanríkis- og öryggismálum. Þeir lýstu fullum stuðningi við ákvörðun stjórnvalda. Ríkisstjórnin kynnti ákvörðun sína í utanríkismálanefnd stórþingsins að morgni fimmtudags 13. apríl.

 

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …