Home / Fréttir / Norðmenn reisa stærsta fljótandi vindorkuver heims

Norðmenn reisa stærsta fljótandi vindorkuver heims

Myndin á að gefa hugmynd um fljótandi vindorkuverið.
Myndin á að gefa hugmynd um fljótandi vindorkuverið.

Norska olíu- og orkumálaráðuneytið hefur samþykkt framkvæmdaáætlanir fyrir hafvindorkuverið Hywind Tampen í Norðursjó. Þetta verður stærsta fljótandi vindorkuver í heimi og fyrsta sem Norðmenn reisa. Ætlunin er að framkvæmdir hefjist árið 2022.

„Þetta er sögulegur dagur þegar við samþykkjum áætlun um framkvæmdir hér í Noregi fyrir stærsta fljótandi vindorkuver heims. Þetta er lítið skref til grænna umskipta en stórt skref fyrir norska úthafsstarfsemi og fljótandi vindorkuver. Hywind Tampen kann að verða upphaf að nýju ævintýri fyrir norskan iðnað,“ segir Tina Bru, olíu- og orkumálaráðherra Noregs, í fréttatilkynningu ráðuneytis hennar.

Með nýja orkuverinu er ætlunin að breyta orkugjöfum fyrir Snorre- og Gullfaks-olíuvinnslusvæðin. Endurnýjanleg vindorka kemur í stað um þriðjungs af gasorku sem nú er notuð á borpöllum á svæðinu.

Alls verða reistir ellefu turnar sem teygja sig 190 m upp frá haffletinum en spaðarnir eru 167 m í þvermál og framleiða túrbínurnar alls 88MW. Fljótandi, steyptar undirstöður turnanna verða festar við hafsbotninn. Við framkvæmd verksins ætla Norðmenn að nýta sér þekkingu og reynslu af olíu- og gasvinnslu á hafi úti.

Með vindorkunni minnkar útblástur CO2 um 200.000 tonn á ári segir Equinor, er það ársútblástur 100.000 bifreiða. Talið er verkið kosti um 5 milljarða n. krónur. Fjárfestingin stendur ekki undir sér og fæst 2,3 milljarða styrkur úr Enova, sjóði gegn útblæstri á vegum norska umhverfisráðuneytisins. Þeir sem að verkinu standa eru Equinor, Petoro, OMV, ExxonMobil, Idemitsu, DEA og Point Resources.

Í iðnaðarhöfninni Gulen í Sogn og Fjordane verða fljótandi turnarnir settir saman áður en þeir verða dregnir út á Norðursjó.

 

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …