Home / Fréttir / Norðmenn opna geim- og gervitunglastöð á Andøya með Bandaríkjamönnum

Norðmenn opna geim- og gervitunglastöð á Andøya með Bandaríkjamönnum


Hjörð gervitungla mynda grunnvirki nýrrar hertækni í geimnum.

Norsk og bandarísk stjórnvöld ætla að reisa gervihnattastöð í flugherstöðinni á Andøya undan norðurströnd Noregs. Norski varnarmálaráðherrann, Bjørn Arild Gram, segir að með stöðinni styrkist varnir Noregs og NATO-svæðisins alls.

Þetta er fyrsta stöðin sinnar gerðar sem reist er utan Bandaríkjanna segir norska varnarmálaráðuneytið. Henni er ætlað að stytta viðvörunartíma gagnvart stýriflaugum í norðri.

Andøya er um 800 km fyrir vestan Severomorsk, höfuðstöðvar rússneska Norðurflotans. Þar er Andøya Spaceport, geimmiðstöð til stuðnings hernaðarlegum aðgerðum Norðmanna. Þá hafa norsk stjórnvöld ákveðið að á eyjunni verði miðstöð langdrægra eftirlitsdróna sem verða út á Noregshaf og Barentshaf.

Norski varnarmálaráðherrann segir að það sé markmið ríkisstjórnar Noregs að hjá Norðmönnum verði besta ástandsvitund innan NATO um stöðu mála á norðurslóðum. Í því efni skipti miklu að nýta gervihnetti og aðstaðan á Andøya sé einstök til að nýta gervitungl og geimtækni sem best.

Í tilkynningu norska varnarmálaráðuneytisins frá 10. apríl um nýju gervihnattastöðina segir að upplýsingar frá tækjum úti í geimnum ráði miklu við töku ákvarðana í hernaði og samráð innan NATO. Það skipti því miklu að eiga greiðan aðgang að geimupplýsingum með góðri tengingu við gervihnattaþjónustu.

Um er að ræða grunnvirki í geimnum sem nefnist á ensku Proliferated Warfighter Space Architecture (PWSA) og styðst við mörg hundruð gervitungl. Með stuðningi þessa kerfis á meta stöðu og ástand hverju sinni, efla stjórnkerfi herafla og framkvæmd aðgerða. Skapað verður samband milli búnaðar til að afla upplýsinga og tækja til að framkvæma skipanir, ekki síst þegar um er að ræða langdræg nákvæmnisvopn og varnarkerfi sem er sérstaklega hannað til að verjast stýriflaugaárás.

Fyrstu hjörð gervitunglanna verður skotið á loft í ár, 2024, og verða tunglin orðin virk til aðgerða árið 2025. Stefnt er að því að PWSA verði að fullu komið í notkun árið 2029. Þetta geimgrunnvirki gervitungla er þróað af bandarísku Space Development Agency.

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …