Home / Fréttir / Norðmenn opna átta stöðvar fyrir Bandaríkjaher – alls 12 í Noregi

Norðmenn opna átta stöðvar fyrir Bandaríkjaher – alls 12 í Noregi

Marc Nathason, sendiherra Bandaríkjanna, (t.v.) og Bjørn Arild Gram, varnarmálaráðherra Noregs, við undirritun viðbótarákvæða við varnarsamninginn.

Norðmenn hafa breytt varnarsamningi sínum við Bandaríkjamenn frá 2021 og fjölgað þeim stöðvum um átta þar sem Bandaríkjaher er heimilað að nýta mannvirki til að efla varnarsamvinnu sína við norrænu ríkin.

Marc Nathason, sendiherra Bandaríkjanna, og Bjørn Arild Gram, varnarmálaráðherra Noregs, rituðu undir nýju ákvæðin í samningnum föstudaginn 2. febrúar. Samningurinn fer fyrir norska stórþingið til samþykktar.

Ráðherrann sagði að við núverandi aðstæður í öryggismálum yrði að halda áfram að treysta sambandið við bandamenn Noregs, það væri mikilvægt fyrir öll Norðurlöndin. Bandaríkjamenn væru nánustu bandamenn þeirra.

Í upphaflega varnarsamningi Norðmanna og Bandaríkjamanna frá 2021 er gert ráð fyrir fjórum stöðvum og svæðum þar sem Bandaríkjaher geti staðið að mannvirkjagerð og æft með norska hernum. Nú verða stöðvarnar 12 sem bandaríski herinn hefur heimild til að nota.

Bjørn Arild Gram sagði að staða öryggismála væri alvarlegri nú en árið 2021 þegar upphaflegi samningurinn var gerður. Við þeim breytingum yrði að bregðast. Þá mundi viðbótin við samninginn einnig koma sér vel í norrænu samhengi.

Finnar, Svíar og Danir rituðu hver um sig undir tvíhliða varnarsamninga við Bandaríkjamenn í desember 2023. Með nýju norsku viðbótinni og varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 hefur Bandaríkjaher nú aðgang að tæplega 50 stöðvum á Norðurlöndunum.

Þeir staðir sem nú bætast við í Noregi eru flugherstöð og flugvöllur á Andøya, flugherstöð og flugvöllur í Ørland, Haakonsvern-flotastöðin, Værnes-herbúðirnar, flugherstöð og flugvöllur í Bardufoss, Setermoen-herstöðin ásamt skotæfingasvæði, Osmarka-hellakerfið og Namsen-olíustöðin.

Í mars hefjast æfingar NATO í Noregi undir heitinu Nordic Response 2024 en nokkrir áratugir eru frá því að bandalagið hefur efnt til svo viðamikillar æfingar norðan heimskautsbaugs.

Um það bil 20.000 hermenn taka þátt í æfingunum. Þær snúast að verulegu leyti um samstarf og sameiginlegar aðgerðir þvert á landamæti Noregs, Svíþjóðar og Finnlands í hánorðri.

Um 100 flugvélar frá ólíkum flugherjum taka þátt í æfingunum. Meira en 50 kafbátar, freigátur, korvettur, flugmóðurskip og ýmiss konar landgönguskip verða undan strönd Noregs.

Heimild: Barents Observer

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …