Home / Fréttir / Norðmenn og Danir auka varnarsamstarf á N-Atlantshafi og norðurslóðum

Norðmenn og Danir auka varnarsamstarf á N-Atlantshafi og norðurslóðum

Varnarmálaráðherrar Danmerkur og Noregs við F-16 orrustuþotu.

Varnarmálaráðherrar Noregs og Danmerkur, Bjørn Arild Gram og Troels Lund Poulsen, rituðu fimmtudaginn 27. júní undir samstarfssamning um varnarmál sem miðar að því að styrkja hernaðarlegt samstarf ríkjanna á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum.

Í tilkynningu norska varnarmálaráðuneytisins segir Bjørn Arild Gram að aukið og nánara samstarf á þessum svæðum sé mikilvægt, þar sé bæði um strategíska hagsmuni NATO-þjóðanna og Rússa að ræða. Með auknu samstarfi vilji norsk og dönsk yfirvöld dýpka varnarsamstarf sitt enn frekar með fræðslu og þjálfun, drónum og loftvörnum. Með þessu verði stuðlað að því að efla öryggi Noregs, norrænu ríkjanna og NATO-svæðisins.

Í danska hernum eru Leopard-2 skriðdrekar, F-35 orrustuþotur og SEAHAWK-þyrlur. Norski herinn ræður yfir sama vopnabúnaði og tækjum. Bæði ríkin ætla að auka loftvarnir sínar. Niðurstaða stjórnvalda þeirra er að sameiginlega styrki þau stöðu sína meðal annars með sameiginlegri þjálfun og æfingum.

Troels Lund Poulsen fagnar því að Danir og Norðmenn þétti varnarsamstarf sitt. Þegar stríð sé háð í Evrópu sé nauðsynlegt að eiga gott og náið samstarf við norrænar nágrannaþjóðir og bandamenn innan NATO. Þetta sé enn eitt skrefið til að styrkja samstarf í þeim anda.

Frá því í fyrrasumar hafa norskar flugáhafnir og flugvirkjar verið við þjálfun og æfingar í dönsku flugherstöðinni í Karup til að kynnast þar SEAHAWK-þyrlum danska hersins en Norðmenn bíða þess að taka þyrlur af þeirri gerð í notkun í eigin her.

Í dönsku Skrydstrup-flugherstöðinni eru tvær norskar F-16 orrustuþotur sem notaðar eru til þjálfunar fyrir orrustuflugmenn frá Úkraínu. Danir og Norðmenn eiga náið samstarf um aðstoð við Úkraínu.

Í lok norsku fréttatilkynningarinnar segir varnarmálaráðherrann að Norðmönnum sé kappsmál að efla sameiginlegar varnir, svæðisbundið eða tvíhliða. Hann segir að aðild Finna og Svía að NATO efli norræna varnarsamstarfið. Samhliða því sé einnig mikilvægt að styrkja þríhliða og tvíhliða samstarf milli norrænu bandalagsþjóðanna. Þar sé sama viðhorf til öryggismála og öryggishagsmunirnir falli saman.

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …