
Norska ríkisstjórnin tilkynnti mánudaginn 13. mars að markmið hennar sé að veita heimild til olíuleitar á 93 svæðum í Barentshafi þegar hún gefur 24. leyfi sitt síðar á árinu. Norsk yfirvöld hafa aldrei áður veitt svo víðtæka heimild til olíuvinnslu á norðurslóðum.
Tilkynning og upplýsingar um þetta hafa nú verið sendar til 121 einka- og opinberra aðila sem verða að bregðast við henni fyrir 2. maí 2017 hafi þeir áhuga á að vera með í útboðinu. Þess er vænst að leyfisveitingar verði kynntar fyrir lok maí og fyrirtæki verða að senda inn tilboð sín fyrir árslok segir í fréttatilkynningu norska olíu- og orkumálaráðuneytisins.
Nýju svæðin ná yfir norska hluta Barentshafs frá austri til vesturs, norðri til suðurs. Allt í allt 47 svæði eru á 73 breiddargráðu. Ekkert svæðanna í 24. umferðinni liggur beint upp að markalínunni gagnvart rússneska svæðinu í Barentshafi. Alls eru þó 12 svæði í suðaustur horni norska hluta Barentshafs undan strönd Vardanger-skaga.
Frá Bandaríkjunum berast fréttir um að Lisa Murkowski, öldungadeildarþingmaður repúblíkana í Alaska-ríki, telji að Donald Trump hafi áhuga á að aflétta banni á olíu- og gasvinnslu í heimskautahéruðum Alaska.
Frá þessu var sagt á síðu fréttastofunnar Bloomberg föstudaginn 10. mars. Þar kemur fram að það muni líklega taka mörg ár að hrinda áformum um olíu- og gasleit á þessum stöðum af stað vegna skriffinnsku og stjórnsýsluákvæða.
Lisa Murkowski hefur oft komið til Íslands og meðal annars tekið þátt í fundum Hringborðs norðursins (Arctic Circle). Hún er formaður orku- og auðlindanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings.
Talið er að finna megi 27 milljarða tunna af olíu á heimskautasvæðum Bandaríkjanna og gífurlegt magn af gasi. Shell varði á rúmum sjö árum um 8 milljörðum dollara í árangurslausa leit að olíu á hafsbotni milli Alaska og Síberíu í Rússlandi. Leitinni var hætt árið 2015.
Í frétt Bloombergs segir að teikn séu á lofti um að hagur þeirra sem leita að olíu í og við Alaska kunni að vænkast. Spænska olíufélagið Repsol SA tilkynnti fimmtudaginn 9. mars að það hefði fundið 1,2 milljarði tunna á North Slope í Alaska, er það mesta olía sem fundist hefur á landi í Bandaríkjunum í þrjá áratugi. Árið 2016 tilkynnti lokaða fyrirtækið Caelus Energy Corp. að það hefði fundið að minnsta kosti 2 milljarða tunna af vinnanlegri olíu djúpt á botni Smith-flóa í norðvestur Alaska.
Á sama tíma og yfirvöld í Noregi og Bandaríkjunum ráðgera aukna olíu- og gasvinnslu á norðurslóðum búa þingmenn á ESB-þinginu sig undir að samþykkja ályktun um norðurslóðir þar sem lagst er gegn olíuborunum á heimskautasvæðum aðildarríkja ESB og EES. Tillagan nær því til Noregs.
Ályktunin hefur ekki lagagildi en verði hún samþykkt gefur hún til kynna að þingmennirnir séu andvígir olíuvinnslu á heimskautasvæðum. Greidd verða atkvæði um ályktunina á ESB-þinginu fimmtudaginn 16. mars.