Home / Fréttir / Norðmenn loka á flutninga Rússa í Finnmörk

Norðmenn loka á flutninga Rússa í Finnmörk

Storskog-landamærastöðin til Rússlands skammt frá Kirkenes í Finnmörk.

Norska ríkisstjórnin tók föstudaginn 29. apríl um nýjar refsiaðgerðir gegn Rússum vegna stríðsins í Úkraínu. Hafnbann á rússneskar vörur er sett frá og með 7. maí. Bannið nær ekki til rússneskra fiskiskipa. Tvö af hverjum þremur rússneskum skipum geta því áfram leitað hafna í Noregi.

Strax gengur í gildi bann við að flytja vörur til og frá Rússlandi yfir landamæri Noregs og Rússlands í Finnmörk, Norður-Noregi. Flutningur á öllum varningi sem er á bannlista ESB verður stöðvaður í Storskog-landamærastöðinni, skammt frá Kirkenes.

Með þessu innleiðir norska ríkisstjórnin fimmta pakka refsiaðgerða ESB frá 8. apríl gegn Rússum. Hafnbannið nær ekki Svalbarða í samræmi við Svalbarða-samninginn. Sömu reglur eiga að gilda um alla sem hafa ritað undir hann.

Norska stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt hve lengi ríkisstjórnin hefur velt fyrir sér að ákveða hafnbannið. Í ræðu sem Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti flutti norska stórþinginu í lok mars hvatti hann til hafnbannsins.

Stjórnvöld í Osló segja að þau verði að fá ráðrúm til að laga ESB-ákvarðanir sem teknar séu án beinnar aðildar Norðmanna að norskum hagsmunum og samvinnu Norðmanna og Rússa á norðurslóðum.

Eftir að ESB bannaði flutning á rússneskum vörum yfir landamæri aðildarlanda sinna hafa flutningar um landamærin í Storskog í Finnmörk aukist. Norska stjórnin hefur nú lokað á þá.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …