Home / Fréttir / Norðmenn kaupa 54 Leopard 2 skriðdreka

Norðmenn kaupa 54 Leopard 2 skriðdreka

Leooard 2 skriðdrekar í Norður-Noregi.

Að loknu löngu skoðunar- og matsferli hafa norsk stjórnvöld ákveðið að festa kaup á nýjum skriðdrekum. Pantaðir hafa verið 54 Leopard 2 skriðdrekar frá þýska framleiðandanum Krauss-Maffei Wegmann með forkaupsrétti á 18 til viðbótar. Fyrstu drekarnir verða afhentir árið 2026.

Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, skýrði frá ákvörðuninni um kaupin á blaðamannafundi föstudaginn 3. febrúar.  Ráðherrann sagði að nýtt járntjald hefði verið dregið í Evrópu, við blöstu hörð landamæri. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að styrkja tengslin við Þýskaland og norrænu nágrannaríkin.

„Ég ræddi við Scholz Þýskalandskanslara í morgun og hann leggur áherslu á að nýi samningurinn muni tengja löndin tvö enn nánari böndum,“ sagði Støre. Hann fullyrti jafnframt að hlutur Þjóðverja í evrópskum öryggismálum yrði sífellt mikilvægari.

Kaupin á nýju skriðdrekunum verða til þess að efla enn varnarsamvinnu Norðmanna við Finna og Svía en herir þeirra halda einnig úti Leopard skriðdrekum. Með aðild þjóðanna að NATO hefur herstjórn bandalagsins til taks öflugan landher í norðri til varnar landsvæðum þar gegn óvinveittri árás.

Fyrir eiga Norðmenn alls 36 skriðdreka alla af Leopard 2 gerð, smíðaða á árunum 1983 til 1985. Bjørn Arild Gram varnarmálaráðherra sagði að hugsanlega yrði hluti þessara gömlu skriðdreka sendur innan tíðar til Úkraínu.

Kaup á nýjum skriðdrekum hafa lengi verið til umræðu í Noregi. Auk þýsku drekanna var einnig litið Suður-Kóreu og K2 Black Panther skriðdreka þar. Innan norska hersins hafa menn ekki verið sammála um nauðsyn þess að endurnýja skriðdrekaflotann. Haustið 2022 vakti mikla athygli þegar Eirik Kristoffersen, yfirmaður norska hersins, sagðist vilja falla alfarið frá hugmyndum um nýja skriðdreka.

 

Heimild: Barents Observer.

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …