Home / Fréttir / Norðmenn í vandræðum vegna nýrra leitar- og björgunarþyrlna

Norðmenn í vandræðum vegna nýrra leitar- og björgunarþyrlna

 

Þyrla af NH90-gerð.
Þyrla af NH90-gerð.

Belgar keyptu NH90 þyrlur til að sinna leitar- og björgunarþjónustu. Þeir neyddust í vikunni til að leggja þremur þeirra vegna alvarlegra bilana. Norski herinn hefur einnig glímt við vandamál vegna þyrlna af þessari gerð segir á vefsíðunni ABC Nyheter laugardaginn 13. janúar.

Belgar hafa til þessa notað gamlar Sea King-þyrlur til leitar og björgunar en ætlunin var að næstu daga kæmu fjórar NH90 þyrlur í stað þeirra. Nú hefur verið ákveðið að  leggja öllum nýju þyrlunum á meðan unnið er að endurbótum á þeim.

Frederik Vansina, yfirmaður belgíska flughersins, segir við belgíska fjölmiðla að flugherinn hafi síðan 2015 glímt við vandamál vegna Caïman-þyrlnana eins Belgar kalla NH90-vélarnar.

„Frá afhendingu vélanna hefur mikið verið að þeim. Á þremur af fjórum þeirra virkar ratsjáin ekki eins og hún á að gera. […] Barnasjúkdómarnir eru greinilega margir,“ segir Vansina.

ABC Nyheter segir að kaup Norðmanna á 14 NH90-þyrlum hafi leitt til meiri vandræða fyrir innkaupadeild hersins en áður hafi þekkst. Afgreiðsla á þyrlum til strandgæslunnar hafi tafist hvað eftir annað og um þessar mundir sé aðeins ein NH90-þyrla starfrækt. Í ársskýrslu strandgæslunnar fyrir árið 2017 komi fram að á árinu hafi ekki tekist skapa aðstæður til að nota þyrlur um borð í skipum gæslunnar.

Í febrúar 2017 lýsti Haakon Bruun-Hanssen, yfirmaður norska hersins, kaupunum á þyrlunum sem hneyksli þegar hann gaf skýrslu um kaup á freigátum til norska flotans. Stefnt hefur verið að því að nýju þyrlurnar verði að fullu komnar í gagnið í Noregi árið 2020. Fyrirvari er þó við þetta vegna bilana í NH90 þyrlunum.

Það hefur nú dregist um 10 ár að norski flotinn fengi nýjar þyrlur. Í október í fyrra gaf yfirstjórn hersins til kynna að leita yrði nýrra lausna. Vinnur starfshópur að því að meta leiðir í stöðunni.

Norðmenn miða við að strandgæslan fái átta nýjar þyrlur en sex þyrlur verði um borð í norskum freigátum.

Smíðin á NH90-þyrlum er samstarfsverkefni nokkurra Evrópulanda en Eurocopter á meirihluta í fyrirtækinu sem afhendir vélarnar. Norðmenn hafa fengi sex þyrlur afhentar.

Eftirlitsnefnd norska stórþingsins mæltist til þess í maí 2017 að ríkisstjórnin endurskoðaði samninginn við Eurocopter. Varnarmálaráðherrann taldi ekki skynsamlegt að rifta samningnum.

Svíar pöntuðu NH90 þyrlur á sínum tíma en sögðu sig frá samningnum fyrir nokkrum árum og keyptu þess í stað Sikorsky-þyrlur. Segir Teknisk Ukeblad í Noregi að Svíar hafi fengið 15 Sikorsky-þyrlur afhentar á aðeins 16 mánuðum.

 

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …