Home / Fréttir / Norðmenn herða landamæravörslu gagnvart Rússlandi

Norðmenn herða landamæravörslu gagnvart Rússlandi

 

Unnið við gerð landamæragirðingar í Noregi.
Unnið við gerð landamæragirðingar í Noregi.

Unnið er hörðum höndum að því að reisa 200 m langa 3,5 m háa girðingu á landamærunum milli Noregs og Rússlands norður við Barentshaf. Ætlunin er að framkvæmdum verði lokið áður en tekur að snjóa. Anders Anundsen, dómsmálaráðherra Noregs, ákvað að gripið yrði til þessa ráðs til að ná betri stjórn á landamæravörslunni.

Áformin um nýju girðinguna kynnti hann í apríl í ár eftir að straumur flótta- og farandfólks jókst skyndilega frá Rússlandi til Noregs og um 5.500 hælisleitendur komu á reiðhjólum til Noregs.

Frá því í vor hefur lítið borið til tíðinda við 196 km löng landamærin þar til fyrir skömmu þegar Rune Rafaelsen, bæjarstjóri í norska landamærabænum Kirkenes, hóf að gagnrýna lagningu landamæragirðingarinnar og sagði hana skaða samskiptin við Rússa.

Um er að ræða stutta girðingu, aðeins um 200 metra. Stjórnmálamenn, flóttamannavinir, fræðimenn og fyrrverandi landamæraverðir gagnrýna framkvæmdina. Þeir óttast að með henni líði friðsamleg og góð samskipti við Rússa frá lokum kalda stríðsins undir lok á þessum norðlægu slóðum. Tjónið vegna þess verði ekki aðeins á heimavelli heldur um heim allan enda muni Rússar nýta sér girðinguna til áróðurs gegn Vesturlöndum.

Thomas Nilsen, ritstjóri Independent Barents Observer, hefur blandað sér í umræðurnar og segir að girðingin sé aðeins sýndarmennska. Menn þurfi að vera verulega illa á sig komnir til að láta hana hindra för sína. Hún verði aðeins til að spilla stjórnmálasamskiptum við Rússa.

Árið 2010 sömdu Rússar og Norðmenn um friðsamlega samvinnu á norðurslóðum. Þeir leystu 40 ára deilu um línu sín á milli í Barentshafi og ákváðu að án vegabréfsáritunar gætu íbúar við landamærin farið allt að 30 km inn á land hins.

Rune Rafaelsen segir við norska fjölmiðla að um helmingur af 10.000 íbúum í héraðinu Sør-Varanger hafi nýtt sér heimildina til ferðafrelsis innan 30 km frá landamærunum en með girðingunni yrði dregið úr líkum á að þeir nýttu sér þetta frelsi.

Thomas Nilsen leggur áherslu á að Norðmenn séu eina Schengen-þjóðin sem gert hafi samning við Rússa um ferðir án áritana. Hann sjái frá þeim stað þar sem hann búi í Kirkenes að ekki aðeins Norðmenn séu að leggja gaddavír á landamærum sínum heldur séu Rússar teknir til við að hressa upp á ryðgaðar gaddavírsrúllur sín megin við landamærin. Hann segir að það sé ekki vegna þess að Rússar óttist innrás frá Noregi heldur ætli yfirvöldin að nota þetta til heimabrúks og til að sanna að hættulegt sé að fara lengra en að gaddavírnum.

Opinberlega hafa rússnesk yfirvöld ekki sagt neitt um framkvæmdir Norðmanna og Ove Vanabo, varadómsmálaráðherra Noregs, segir við Jyllands-Posten að yfirmaður rússnesku landamæravarðanna hafi verið upplýstur um málið. Rússneskir fjölmiðlar hafa hins vegar gripið gagnrýni bæjarstjórans í Kirkenes á lofti. Á vefsíðu rússnesku útvarpsstöðvarinnar Ekho Moskvy segir til dæmis að síður en svo allir styðji framkvæmdina:

„Baráttumenn fyrir réttindum flóttamanna leggjast gegn verkefninu og það gerir einnig Rune Rafaelsen, bæjarstjórinn í landamærabyggðinni Sjor-Varanger. Hann segir að með því að reisa múr stuðli menn ekki að því að bæta samskiptin milli ráðamanna í Osló og Moskvu.“

Í Rússlandi er auk þess bent á að Norðmenn séu ekki hinir einu til að reisa slíkar landamærahindranir. Sama megi segja um Eistlendinga sem ætli að verja 70 milljónum evra til að reisa landamæragirðingu og Lettar ætli að nota um 17 milljónir evra til þess. Haft er eftir Rikard Kozlovskis, innanríkisráðherra Lettlands, að miklu ódýrara að hindra för yfir landamærin en að borga fyrir heimsendingu þeirra sem koma ólöglega yfir landamærin.

Flemming Spliedsboel Hansen, sérfræðingur við Dönsku utanríkismálastofnunina, Dansk Institut for Internationale Studier (DIIS), efast um að Rússar muni líta á landamæragirðingu Norðmanna sem óvinabragð

„Rússar fylgjast vel með opinberum umræðum í Noregi og nýti þeir sér þær er það til að finna sér einhverja afsökun,“ segir hann og bendir á að flest bendi til þess að Rússar sjálfir hafi átt hlut að máli þegar mörg þúsund hælisleitendur reyndu að komast yfir landamærin frá Rússlandi til Noregs og Finnlands. „Það liggja fyrir nokkuð góð gögn um að rússnesk yfirvöld hafi auðveldað þetta.“ segir hann.

 

Heimild: Jyllands-Posten

Skoða einnig

Tortryggni í garð Moskvuvaldsins vex í gömlu Sovétlýðveldunum

Stuðningur við forsystusveit Rússlands hefur hrapað í nágrannalöndum landsins. Íbúar landanna eru tortryggnir í garð …