Home / Fréttir / Norðmenn flytja birgðir til Rússa á Svalbarða

Norðmenn flytja birgðir til Rússa á Svalbarða

Frá rússneska kolanámubænum Barentsburg á Svalbarða. Mynd Thomas Nilsen, BarentsObserver,

Norska ríkisútvarpið, NRK, skýrði frá því miðvikudaginn 6. júlí að um helgina hefði norskt flutningafyrirtæki tekið að sér að flytja tvo rússneska gáma frá landamærastöðinni Skogskog um 800 km leið frá Rússlandi til Tromsø í Norður-Noregi. Þaðan yrðu þeir fluttir með norsku skipi til Svalbarða.

Ane Haavardsdatter Lunde, upplýsingafulltrúi norska utanríkisráðuneytisins, sagði að unnið hefði verið að lausn birgðaflutningamálsins með rússneskum yfirvöldum. Norskir landamæraverðir stöðvuðu rússneska flutningabíla með gámana. Sagðist Lunde vona að Rússar væru sáttir við lausnina sem hefði fundist.

Þegar norsk yfirvöld sögðust framfylgja ákvörðun evrópskra ríkisstjórna og stöðvuðu rússnesku ökumennina og um 20 tonna farm þeirra við landamæri sín var því illa tekið í Moskvu án þess að upplýst væri hvers vegna Rússar gætu ekki sjálfir sent skip með farminn beint frá Múrmansk til Svalbarða í stað þess að velja leið í gegnum Noreg.

Var látið að því liggja í rússneskum fjölmiðlum að Norðmenn beittu „flutningabanni“ á borð við það sem gripið hefði verið til af Litháum vegna Kaliningrad, hólmlendu Rússa.

Rússneskir þingmenn gáfu til kynna að Norðmenn brytu gegn skyldum sínum samkvæmt Svalbarðasáttmálunum frá 1920, þeim væri skylt að auðvelda flutninga á vistum til rússnesku námubyggðarinnar í Barentsburg á Svalbarða. Þá var því hreyft í Dúmunni, neðri deild rússneska þingsins, að rifta ætti samningi Norðmanna og Rússa frá 2010 um markalínu í Barentshafi og Norður-Íshafi.

Heimild: BarentsObserver

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …