Home / Fréttir / Norðmenn efla varnir og viðbúnað vegna aukinnar hættu í norðri

Norðmenn efla varnir og viðbúnað vegna aukinnar hættu í norðri

Bjørn Arild Gram varnarmálaráðherra, Jonas Gahr Støre forsætisráðherra og Eirik Kristoffersen, hershöfðingi, yfirmaður norska heraflans, kynna aukinn viðbúnað Norðmanna 31. október 2022.

Frá með deginum í dag, 1. nóvember 2022, hækkar norski herinn viðbúnaðarstig sitt. Tekur starfsemi hersins mið af alvarlegu ástandi öryggismála í Evrópu.

Jonas Gahr Støre forsætisráðherra, Bjørn Arild Gram varnarmálaráðherra og Eirik Kristoffersen, hershöfðingi, yfirmaður norska heraflans, efndu til blaðamannafundar mánudaginn 31. október og kynntu ákvörðunina um aukinn hernaðarlegan viðbúnað Norðmanna.

Forsætisráðherrann sagði að Norðmenn stæðu nú frammi fyrir alvarlegustu stöðu í öryggismálum sem þeir hefðu kynnst um margra áratuga skeið. Engar vísbendingar væru um að Rússar ætluðu að herja á fleiri þjóðir en vegna aukinnar spennu yrðu norsk yfirvöld að bregðast við aukinni hættu á ögrunum, njósnum og tilraunum til áhrifa í landi þeirra. Af þessum sökum yrðu öll NATO-ríki að sýna meiri árvekni.

Ráðherrarnir Støre og Gram sögðu að ákvörðunin um að hækka viðbúnaðarstig hersins væri ekki reist á einstöku atviki heldur tæki hún mið af því hvernig öryggismál hefðu þróast um nokkurt skeið.

Hershöfðinginn Eirik Kristoffersen sagði að frá því í desember í fyrra hefði norski herinn gripið til ýmissa aðgerða og nú yrði meira gert í því efni til að tryggja sem öflugastan viðbúnað og hæfni til að greina og bægja frá flóknum ógnum og yrði það gert í samvinnu við borgaralegar stofnanir.

„Mikilvægasta verkefni heraflans er að varðveita frið okkar og öryggi og koma í veg fyrir átök. Til þess að leysa þetta verkefni af hendi verðum við að laga starf okkar að þeirri stöðu sem við erum í hverju sinni. Við erum einmitt að gera það núna með því að breyta forgangsröðun skipulagðra verkefna okkar til að efla viðbragð okkar, aðgerðahæfni og viðnámsþrótt,“ sagði hershöfðinginn.

Varnarmálaráðherrann Gram sagði að höfuðáhersla yrði lögð á sem best stöðumat á hafsvæðum norðurslóða. Kristoffersen bætti við að í þessu fælist meðal annars að eftirlit yrði aukið á þessum hafsvæðum.

Af hálfu hersins er nú kannað hvort unnt sé að flýta afhendingu á nýjum eftirlitsflugvélum af gerðinni P-8 frá Boeing-verksmiðjunum í Bandaríkjunum. Þá hefur verið horfið frá því að efna til æfinga á F-35 orrustuþotum í Bandaríkjunum og styrkja þess í stað flugflotann í Noregi.

Gram ráðherra sagði að þær ráðstafanir sem gripið yrði til væru ekki allar sýnilegar og óhjákvæmilegt væri að gæta leyndar um eðli þeirra. Herinn hefði góða mynd af stöðu mála og nú yrði honum gert kleift að viðhalda þeirri upplýsingaöflun og vitneskju í að minnsta kosti eitt ár.

Þegar forsætisráðherrann Støre var spurður hvort ákvörðunin um að hækka viðbúnaðarstig norska hersins um eitt stig mundi auka spennu á norðurslóðum lagði hann áherslu á að Norðmenn ógnuðu engum heldur stigu aðeins þau skref sem metin væru nauðsynleg til að tryggja öryggi í óvissuástandi.

„Það verður að vera ljóst að við getum gætt eigin öryggis. Þetta er viðvörun til allra sem kynnu að vilja ögra okkur. Herinn gætir landamæra okkar í norðri og hefur góða sýn yfir svæðin í næsta nágrenni okkar,“ sagði forsætisráðherrann.

***

Í samtali við norsku vefsíðuna Altinget.no sagði Jonas Gahr Støre:

„Við búum ekki við sömu aðstæður hér og Úkraínumenn sem um þetta leyti í fyrra sáu mikinn herafla safnast saman við landamæri sín. Ég tel ekki að við stöndum frammi fyrir slíkri ógn. Á undanförnu ári, mánuðum og vikum höfum við hins vegar séð hvernig fjölþátta ógnarmyndin er. Í þágu hverra fljúga drónarnir? Eru njósnarar í Noregi? Hvernig eigum við að skilgreina stöðu einhvers sem segist vera annar en hann var? Við sjáum einnig skemmdarverkaógnir. Vegna þess að þær eru að nokkru hernaðarlegar verðum við að efla viðbúnaðinn.“

Í samtali við Altingt.no sagði hershöfðinginn Eirik Kristoffersen að mikilvægt væri að tryggja gott úthald heraflans vegna þess að lengi verði barist í Úkraínu, ef til vill í nokkur ár.

Hann segist reisa þá skoðun á því hve stórt bil sé milli þess sem Rússar ætluðu sér og hins sem þeim hafi tekist að gera. Þetta sé mikill álitshnekkir fyrir Pútin samtímis því sem Úkraínumenn sæki fram. Fyrir þeim vaki ekki aðeins að endurheimta það sem Rússar hafi hernumið á þessu ári heldur að frelsa alla Úkraínu þar á meðal þann hluta hennar sem Rússar innlimuðu árið 2014. Hvergi sjáist nokkur merki um vilja til að semja. Svona verði þetta lengi,

Varnarmálaráðherrann og yfirmaður norska heraflans leggja áherslu á að ekki megi vanmeta Rússa, hvorki getu þeirra né vilja. Kristoffersen segir að í Úkraínu hafi þeir í stórum dráttum notað stærsta hluta landhersins en lítið hafi reynt á herflotann og flugherinn. Þar ráði þeir yfir hernaðarmætti. Noregur sé nágrannaríki þeirra og þar verði menn að vita hvað gerist í nágrenni sínu.

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …