Home / Fréttir / Norðmenn búa sig undir brottvísun Sýrlendinga til Rússlands

Norðmenn búa sig undir brottvísun Sýrlendinga til Rússlands

Storskog-landamærastöðin-við-Kirkenes-í-Noregi
Storskog-landamærastöðin-við-Kirkenes-í-Noregi

Norsk stjórnvöld áforma að vísa á brott hundruðum Sýrlendinga sem hafa komið til Noregs um landamærin frá Rússlandi. Verður fólkið sent aftur til Rússlands með þeim rökum að það hafi búið lengi í Rússlandi áður en það ákvað að leita vestur á bóginn yfir landamærin nyrst í Noregi.

Noregur er Schengen-ríki og gæta norskir landamæraverðir því ytri landamæra Schengen-svæðisins gagnvart Rússlandi. Um 1.100 Sýrlendingar hafa undanfarið farið inn á Schengen-svæðið í norsku Storskog-landamærastöðinni.

Anders Anundsen, dómsmálaráðherra Noregs, sagði við NRK, norska ríkisútvarpið, fyrir skömmu:

„Við sjáum að margir þeirra sem koma í gegnum Storskog hafa um langt skeið haft löglega búsetu í Rússlandi. Það sýnir að þeir eru ekki á flótta undan stríði, fátækt eða hungursneyð, þeir þurfa í raun ekki að leita verndar í Noregi. Þeir búa nú þegar við öryggi í Rússlandi.“

Ráðherrann benti á að í gildi væri samningur milli Norðmanna og Rússa um meðferð mála af þessu tagi.

NRK sagði að ráðherrann mundi senda minnisblað til yfirvalda útlendingamála og hvetja þau til að setja brottvísun þessa fólks í forgang.

Børge Brende, utanríkisráðherra Noregs, sagðist hafa rætt þetta mál við Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, þegar þeir hittust á fundi Barents-ráðsins miðvikudaginn 14. október.

Þeir sem fara yfir landamærin í Storskog eru á reiðhjólum. Rússar banna að farið sé fótgangandi til Noregs og norsk yfirvöld líta á það sem mansal að aka flóttamönnum í bíl yfir landamærin.

Talið er að allt að 25.000 hælisumsóknir verði lagðar fyrir norsk yfirvöld í ár – flesti hælisleitendur koma til landsins frá Svíþjóð.

Heimild: AFP/The Local (news@thelocal.no)

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …