Home / Fréttir / Norðmenn búa sig undir að styðja Úkraínumenn til langs tíma

Norðmenn búa sig undir að styðja Úkraínumenn til langs tíma

Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs. flytur ræðu í stórþinginu.

Þess sjást merki að víða í Evrópu búa ráðamenn sig undir langvinnt stríð við Vladimir Pútin Rússlandsforseta í Úkraínu. Fréttir berast um að alls hafi Pútin stefnt saman meira en 300.000 manna herliði við austur og suður landamæri Úkraínu og í tilefni af árs afmæli innrásarinnar 24. febrúar verði hafin stórsókn inn í landið.

Áróður magnast í Rússlandi í þá veru að háð sé styrjöld um framtíð rússnesku þjóðarinnar og ríkisins. Í vikunni var þess minnst að 80 ár voru liðin frá blóðugu átökunum um Stalingrad (nú Volgograd) þar sem hermenn Stalíns og Hitlers börðust hús úr húsi við gífurlegt mannfall en sigur Stalíns. Í ræðu sem Pútin hélt við athöfn í Volgograd setti hann sjálfan sig í spor Stalíns þegar hann sagði Rússa enn eiga í átökum við þýska Leopard skriðdreka.

Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, boðaði fimmtudaginn 2. febrúar að ríkísstjórn sín mundi leggja fram tillögu um að Norðmenn stofnuðu sérstakan sjóð til styrktar Úkraínu. Ráðherrann sagði: „Járntjald hefur að nýju verið dregið um Evrópu og skipt Evrópu í tvennt.“ Þegar Pútin næði engum árangri á vígvellinum tæki hann upp sleggjuna og ætlaði að beita henni til langs tíma. Fyrir honum vekti að berja Úkraínumenn til uppgjafar og hlýðni samhliða því að kljúfa samstöðu lýðræðisríkjanna sem stæðu að baki Úkraínumönnum.

Af frásögn á vefsíðunni altinget.no af umræðunum í stórþinginu um skýrslu forsætisráðherrans má ráða að víðtækur stuðningur sé við tillöguna um styrktarsjóðinn en viðræður fulltrúa allra flokka hefjast um hann í næstu viku.

Fram til þessa hafa Norðmenn gefið rúma 10 milljarða NKR til Úkraínu (140 milljarða ISK). Nú er hugmyndin að um auka framlagið með langtíma áætlun um endurreisn Úkraínu og einnig styðja lönd í suðri sem verða illa úti vegna stríðsins.

Lan Marie Berg frá Miljøpartiet De Grønne (MDG) – Græna umhverfisflokknum – talaði um stríðsgróða Norðmanna. Hún las í ræðustól stórþingsins skilgreiningu á stríðsgróðamanni: „einstaklingur eða stofnun sem hagnast fjárhagslega af stríðsrekstri eða af því að selja vopn og annan varning til aðila að stríði“. Hún sagði þetta lýsa vel gjörðum Norðmanna. Hún nefndi útreikninga sem sýndu að Norðmenn högnuðust 2022 og 2023 um 2.000 milljarða NKR umfram það sem venjulegt væri vegna hækkunar á gas- og olíuverði. MDG vill setja allar umframtekjurnar í samstöðusjóð.

Jonas Gahr Støre forsætisráðherra mótmælti harðlega að talað væri um stríðsgróðamann. Hann benti á að Norðmenn réðu ekki orkuverðinu. Hann þakkaði umræðurnar og sagði þær benda til víðtækrar samstöðu í samningaviðræðunum í næstu viku.

 

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …