
Í upphafi hvers árs flytur varnarmálaráðherra Noregs ræðu í Oslo Militære Samfund (OMS). Ine Eriksen Søreide varnarmálaráðherra flutti ræðuna mánudaginn 9. janúar og lagði áherslu á að norska stórþingið hefði í nóvember 2016 samþykkt langtímaáætlun um varnir Noregs næstu 20 ár. Þar er gert ráð fyrir meiri hækkun fjárveitinga til varnarmála en nokkru sinni fyrr í sögu Noregs. Hækkun fjárveitinganna nemur 180 milljörðum norskra króna (2.500 milljarðar ísl. króna). Hærri fjárveitinga gætir strax í fjárlögum ársins 2017.
Varnarmálaráðherrann ræddi þróun varnar- og öryggismála og sagði stöðuna hafa gjörbreyst á árinu 2014 vegna innlimunar Rússa á Krím og yfirgangs rússneska hersins gagnvart Úkraínu. Fyrir Norðmenn skipti aðildin að NATO sköpum, nú sem fyrr. Norðmenn hefðu lagt mikla áherslu á að efla skilning innan NATO á mikilvægi norðurslóða. Innan NATO hefðu norsk stjórnvöld hvatt til þess að flotastefna bandalagsins yrði endurskoðuð með tilliti til mikils hernaðarlegs mikilvægis N-Atlantshafs auk þess hefði Norðmenn hvatt til endurskoðunar á skipulagi herstjórna bandalagsins. Náðst hefði árangur á báðum sviðum. Á vegum NATO hefðu Norðmenn sinnt loftrýmisgæslu yfir Eystrasaltsríkjunum og Íslandi.
Þegar ráðherrann vék að langtímaáætluninni sagði hún að henni mætti skipta í þrjá áfanga,
Í fyrsta áfanga fælist að ná betri árangri með því sem herinn hefði nú undir höndum með því að sinna viðhaldi og birgðasöfnun. Í framkvæmd blasti við að umsvif herflotans hefðu aukist í takti við auknar fjárveitingar, fleiri herskip væru tild dæmis á sjó og tækju þátt í æfingum en áður.
Í næsta áfanga fælist að sigla meira, fljúga meira, æfa meira og þjálfa. Þetta yrði gert innan norska hersins en einnig í samvinnu við heri bandalagsríkja. Viðbragðstími heraflans yrði styttur og tryggt að hann hefði undir höndum nauðsynleg vopn og búnað á hverjum stað og tíma.
Í lokaáfanganum kæmi að því að kaupa nýjar orrustuvélar, kafbáta og flugvélar til eftirlits á höfum úti auk þess sem meiri áhersla yrði lögð á eftirgrennslan og landherinn. Allt væri þetta nauðsynlegt til að auka hernaðarmáttinn en skipti einnig miklu til að tryggja mætti stjórn og eftirlit á gífurlega stóru hafsvæði Norðmanna sem væri sjö sinnum stærra en sjálft land þeirra. Norðmenn héldu uppi eftirliti á norðurvæng NATO fyrir bandalagið í heild. Þeim væri mikilvægt að hafa þetta á eigin hendi til að hafa auga með stöðugleika og þróun í nærumhverfi sínu.
Ráðherrann fór lofsamlegum orðum um þá sem unnu að gerð langtímaáætlunarinnar. Hún sagðist fullviss um að fyrir hendi væri besta áætlunin sem unnt hefði verið að semja við þær aðstæður í öryggismálum sem nú væru og miðað við þarfir Norðmanna og bandamanna þeirra. Nú lægi fyrir áætlun sem myndaði grundvöll undir traustan og sjálfbæran herafla sem miðaðist við framtíð sem væri óráðin í öryggismálum.
Ine Eriksen Søreide minnti á spennu víða á milli ríkja og ósamkomulag um markmið og leiðir til að tryggja alþjóðafrið og stöguleika. Þá sagði ráðherrann:
„Við sjáum að vandamál á gráum svæðum verða erfiðari vegna þess að ríkis- og einkaaðilar láta að sér kveða án tillits til landamæra og innan þeirra til að ná markmiðum sínum. Eins og ykkur er fullljóst: Blendingsaðgerðir eru ekki nýtt fyrirbrigði þótt þær séu aðrar nú en áður. Kjarni þeirra er að þeim er ætlað að skapa óvissu við töku ákvarðana. Er þetta árás? Gengur þetta svo langt að ástæða er til að virkja 5. grein NATO-sáttmálans? […]
Þróunin í Rússlandi er áhyggjuefni. Rússnesk yfirvöld sýna öðrum sífellt meira yfirlæti á því sem þau kalla „hagsmunasvæði“ sitt og í alþjóðastjórnmálum. Við verðum að búa okkur undir að andstæðurnar milli NATO og Rússa verði langvinnar og að Evrópuþjóðir verði á næstu árum að beina athygli sinni í austur þegar hugað er að varnar- og öryggismálum. Við munum áfram berjast fyrir stöðugleika og fyrirsjáanleika í nærumhverfi okkar en verðum einnig að gera okkur grein fyrir að staða öryggismála í Evrópu getur haft áhrif á það sem gerist í norðri.“