Home / Fréttir / Norðmenn að baki GIUK-hliðsins

Norðmenn að baki GIUK-hliðsins

Haakon Bruun-Hanssen
Haakon Bruun-Hanssen

Norðmenn hafa hervæðst að nýju vegna þróunarinnar í Rússlandi við norðurlandamæri þeirra. Þeir hafa fest kaup á nýjum orrustuþotum, eftirlitsflugvélum, kafbátum og loftvarnakerfum. Auk þess sem fjölgað hefur umtalsvert í norska herliðinu.

Haakon Bruun-Hanssen, yfirmaður norska hersins áréttaði, þetta í árlegri ræðu sem norski yfirhershöfðinginn flytur í Militære Samfund í Osló, að þessu sinni mánudaginn 20. janúar 2019.

Þegar hann vék að Barentshafi og Noregshafi nefndi hann sérstaklega rússnesku flotaæfinguna Ocean Shield í ágúst 2019. Þá hefðu um 30 skip úr rússneska Norðurflotanum og Eystrasaltsflotanum stofnað til víðtækrar æfingar undan ströndum Noreg sem sýndi að Norðmenn væru að baki GIUK-hliðsins, sem gjarnan er litið á sem framvarnarlínu NATO á hafinu umhverfis Ísland, það er frá Grænlandi um Ísland til Skotlands.

Fyrst hefðu Rússar æft að loka Eystrasaltinu, þá að hefta siglingar inn á Noregshaf og loks æft brjóstvörn fyrir rússneska kjarnorkukafbátaflotann á Barentshafi með varnarlínu í Noregshafi. Síðan í kalda stríðinu hefði rússneski flotinn ekki efnt til svo umfangsmikillar æfingar svo langt frá eigin ströndum á Noregshafi og við Eystrasalt. Í æfingunni hefði komið í ljós að Noregur væri að baki fremstu varnarlínu Rússa við GIUK-hliðið. Yrði þetta að veruleika yrði „mjög krefjandi“ að fá liðsauka bandamanna Norðmanna inn í land þeirra

Undanfarin fjögur ár hafa útgjöld norska ríkisins til varnarmála aukist um 9,4 milljarða norskra króna og þau halda áfram að vaxa.

Í öllum greinum hersins hefur liðsmönnum fjölgað. Fjölgað hefur verið sveit landamæravarða gagnvart Rússlandi og hjúkrunarliðum þeim til stuðnings hefur einnig fjölgað. Í nyrsta fylki Noregs, Finnmörk, voru allir piltar og allar stúlkur í fyrsta sinn skylduð til að hljóta sex mánaða herþjálfun og þessu verður haldið áfram.

Unnið er að endurnýjun norska flughersins. Alls eiga 52 nýjar F-35 orrustuþotur að verða að fullu til taks árið 2025. Sama ár verða fimm P-8A Poseidon eftirlitsflugvélar einnig komnar í þjónustu norska hersins. Í ár er búist við að síðust NH-90 þyrlurnar verði afhentar. Í alls 15 ár hafa Norðmenn glímt við ítalska þyrluframleiðandann AgustaWestland vegna vélanna.

Þá er unnið að því að efla flotann. Á árunum 2022-2024 fær flotinn ný strandgæsluskip sem geta athafnað sig í ís. Þá er unnið smíði við nokkurra nýrra kafbáta hjá þýska fyrirtækinu ThyssenKrupp. Þeir kosta allt að 41 milljarði norskra króna. Óvíst er hvenær smíði kafbátanna verður lokið.

Heimild: BarentsObserver

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …