Home / Fréttir / Nord Stream 2 úr danskri lögsögu

Nord Stream 2 úr danskri lögsögu

283687

Stjórnendur verkefnisins Nord Stream 2 hafa dregið til baka umsókn til danskra stjórnvalda um leyfi til að leggja leiðslu undir þessu nafni sem flytja á gas frá Rússlandi til Þýskalands um danskt yfirráðasvæði á hafsbotni Eystrasalts fyrir sunnan Borgundarhólm. Umsóknin hefur verið til meðferðar í meira en tvö ár. Matthias Warnig, forstjóri Nord Stream 2 tilkynnti þetta föstudaginn 28. júní.

Sagt var að of mikil óvissa ríkti um afgreiðslu umsóknarinnar og óhjákvæmilegt væri að afturkalla hana til að vernda hagsmuni hluthafa í Nord Stream 2 og evrópskra fjárfesta frá Austurríki, Frakklandi, Hollandi og Þýskalandi.

Fyrir rúmum tveimur árum lagði Nord Stream 2 fram umhverfismat og umsókn um að fá að leggja leiðsluna um yfirráðasvæði Dana. Eftir að umsóknin var lögð fram var dönskum lögum breytt svo að utanríkisráðherra Dana gæti heimilað dönsku orkustofnuninni að undirbúa lagningu leiðslunnar. Lágu öll gögn og heimildir að baki leyfisveitingunni fyrir 1. janúar 2018. Síðan hefur ekkert verið gefið til kynna um hvernig staðið yrði að afgreiðslunni og leyfið veitt segir í tilkynningu frá Nord Stream 2.

Verður nú unnið að því að finna aðra leið fyrir gasleiðsluna á botni Eystrasalts.

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …